Ferðaþjónustan sýni samfélagslega ábyrgð

Það er mikilvægt að vanda til verka í ferðaþjónustunni, eins og kom svo skýrt fram í erindum þeirra sem töluðu á viðburðinum sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík í vikunni. Við þurfum gæði og gott starfsfólk og við þurfum að gera starfsfólki kleift að auka hæfni sína. Þá er ekki hægt að líta framhjá því að allstór hópur erlendra starfsmanna er hvorki mælandi á íslensku né ensku og við því vill ferðaþjónustan bregðast með fagorðalistum sínum. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra voru sammála um mikilvægi þess að við sem þjóð héldum í okkar sérstöðu, tungumálið væri hluti af okkar ímynd og í því fælust tækifæri.

„Þetta er áskorun þegar við þurfum á svo mörgu starfsfólki að halda, við höfum það ekki hér þannig að það kemur annars staðar frá og það talar útlensku og hluti af því er að taka vel utan um það verkefni allt saman. En í mínum huga er þetta líka tæki fyrir ferðaþjónustuna til að sýna samfélagslega ábyrgð af því að við erum búin að ákveða að við ætlum að gera hvað við getum til að bjarga íslenskri tungu og viðhalda henni. Og ef stærsta atvinnugrein landsins tekur þátt í því þá er miklu líklegra að það takist þannig að ég fagna þessu verkefni mjög,“ sagði ferðamálaráðherra í erindi sínu.

Íslandshótel er byrjað að vinna með fagorðalistana og sagði Stefán Karl Snorrason, starfsþróunar- og gæðastjóri viðbrögðin vera mjög jákvæð.

„Málið er að það skiptir ekki máli hvaðan við komum, hvernig við lítum út, af hvaða kyni við erum, við erum öll eins inn við beinið […] við viljum fara eftir sömu gildum. Og það sem tengir okkur saman eru samskipti, hvernig við erum saman sem fjöldi, saman sem hópur og saman sem teymi og tæklum allt, og þess vegna fögnum við því innilega hjá Íslandshótelum að fá svona tæki eins og fagorðalistana til að efla þessi samskipti.“

Ionut-Daniel Stan, matreiðslumaður á Fosshótel Reykholt, sótti nýlega íslenskunámskeið á hótelinu með samstarfsfólki sínu þar sem notast var meðal annars við fagorðalistana. Daniel, eins og hann er allajafna kallaður, er 25 ára og frá Rúmeníu. Hann er með meistaragráðu í ferðaþjónustu og kom til Íslands árið 2015 til að læra. Eftir námið fékk hann atvinnutilboð og starfaði fyrst á næturvöktum en síðan um tíma sem yfirkokkur á hótelinu. Námskeiðið reyndist honum hagnýtt og fókusinn var á fagið, hann lærði ýmis vinnutengd orð og hann lærði að þekkja ferðamannastaðina í kring, sögu þeirra og menningu. Og allir fengu að æfa sig. „Og þó við séum ekki fær um að svara á íslensku eða eiga í samræðum á íslensku þá skiljum við gestina okkar miklu betur. Við skiljum ef einhver biður um mjólk í kaffið sitt á íslensku.“ Að hans sögn er starfsfólkið orðið miklu öruggara að svara: „Afsakið, ég tala bara mjög litla íslensku, ég er að læra.“ Og áhugi stjórnenda hafði mikið að segja, námskeiðið var haldið á hótelinu á vinnutíma og allt var gert til að gera starfsfólkinu kleift að sækja námskeiðið. „Og við viljum halda áfram að læra íslensku, góða íslensku,“ sagði Daniel að lokum og uppskar lófaklapp gesta.

Á mynd er Daniel Stan, matreiðslumaður á Fosshótel Reykholt

 

Fagorðalistar ferðaþjónustunnar í Fréttablaðinu í dag

Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Hæfniseturs ferðaþjónustunnar og FA, og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóra SAF fjalla um fagorðalista ferðaþjónustunnar og mikilvægi góðra samskipta í ferðaþjónustufyrirtækjum í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Þar segir meðal annars:

„Erlendir starfsmenn í íslenskri ferðaþjónustu skipta þúsundum. Áætlað er að um fjórðungur þeirra tæplegu 30.000 starfsmanna sem starfa við greinina séu af erlendu bergi brotnir. Margir þeirra geta aðeins treyst á ensku sem sameiginlegt tungumál við gesti og samstarfsfólk. Allstór hópur erlendra starfsmanna er þó hvorki mælandi á íslensku né ensku. Vinna samt sín störf vel og af trúmennsku. Hins vegar má oft rekja misskilning á leiðbeiningum og/eða veittri þjónustu til tungumálaerfiðleika starfsmanna.“

Hér má nálgast greinina.

 

 

„Gott starfsfólk er lykilatriði fyrir rekstur ferðaþjónustufyrirtækja og góða upplifun ferðamanna“

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra gerðu samspil atvinnulífs og menntamála að umfjöllunarefni á viðburði sem fram fór í dag á Grand hóteli Reykjavík. Það voru Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og SAF sem boðuðu til viðburðarins til að kynna fagorðalista ferðaþjónustunnar sem miðar að aukinni fræðslu til erlends starfsfólks um íslenskt mál.

Í ræðu sinni sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, gott starfsfólk vera lykilatriði fyrir rekstur ferðaþjónustufyrirtækja og góða upplifun ferðamanna.

„Orðalykillinn er mikilvægt tæki til að efla samskipti starfsfólks og því samhliða að auka ánægju þess og hæfni – og þar með gæði íslenskrar ferðaþjónustu.“

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi með það að markmiði að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Í ræðu sinni sagðist ráðherra fagna því frumkvæði sem ferðaþjónustan sýni með því að bjóða íslenskufræðslu með þessum hætti.

„Við viljum snúa vörn í sókn fyrir íslenskuna og þetta er lofsvert framtak sem ég tel að muni bæta þjónustu og stuðla að betri samskiptum.“

Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, afhenti Stefáni Karli Snorrasyni, starfsþróunar- og gæðastjóra hjá Íslandshótelum, fagorðalistann á veggspjaldi en hann er jafnframt tiltækur í ítarlegri útgáfum á vefnum.

Mynd 1: Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamálaráðherra og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF

Mynd 2: Stefán Karl Snorrason, starfsþróunar- og gæðastjóri hjá Íslandshótelum og Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar

Ferðamálaráðherra og menntamálaráðherra koma saman með ferðaþjónustunni

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra gera samspil atvinnulífs og menntamála að umfjöllunarefni á viðburði sem fram fer á morgun, þriðjudaginn 19. mars kl. 14.45 á Grand hóteli Reykjavík, Hvammi. Það eru Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og SAF sem boða til viðburðarins.

Ferðamálaráðherra setti Hæfnisetur ferðaþjónustunnar á fót árið 2017 en það er samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvalda um heildstæðar lausnir og úrbætur til að auka hæfni starfsmanna í ferðaþjónustu á Íslandi. Starfsemin er tryggð til ársloka 2020 en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fjármagnar verkefnið.

Menntamálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi með það að markmiði að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Við þessu vill ferðaþjónustan bregðast. Á viðburðinum verður kynnt verkefni Hæfniseturs ferðaþjónustunnar og stjórnvalda til að efla samskipti, þjónustu og íslenskukunnáttu í ferðaþjónustu hér á landi.

Dagskrá:

  • Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF
  • Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra
  • Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar
  • Stefán Karl Snorrason, starfsþróunar- og gæðastjóri hjá Íslandshótelum, og Ionut-Daniel Stan, matreiðslumaður á Fosshóteli Reykholti, frá Rúmeníu

Ársskýrsla Hæfniseturs ferðaþjónustunnar 2018 er komin út

Árið 2018 vann Hæfnisetur ferðaþjónustunnar hörðum höndum að því að aðstoða og koma á tengslum fræðsluaðila og fyrirtækja. Á árinu var samið við um 70 fyrirtæki í ferðaþjónustu með tæplega 2.000 starfsmenn. Tengt því verkefni er þróun starfsfólks Hæfnisetursins á rafrænum tækjum til að nota í fræðslu, meðal annars með vinnslu fagorðalista, þjálfunarefnis og smáforrita. Þá fundaði Hæfnisetrið með ótal fyrirtækjum og starfsfólki á árinu í eins konar rýnihópum sem Hæfnisetrið setti á stofn til að meta þarfir ferðaþjónustunnar fyrir breytt eða nýtt nám í formlega skólakerfinu. Áherslurnar á árinu voru að smíða, prófa og þróa.

Tímaás prýðir ársskýrsluna þar sem stiklað er á stóru yfir starfsemina árið 2019.

Lesa ársskýrsluna

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar tekur þátt í aðalfundi SAF

Aðalfundur SAF fer fram á Húsavík í dag og af því tilefni er ársskýrsla samtakanna 2018-2019 komin út. Hæfnisetur ferðaþjónustunnar er á staðnum og kynnir starfsemina fyrir gestum aðalfundarins. Heppnir gestir sem heimsækja kynningarbás Hæfnisetursins geta nælt sér í vinning.

Við óskum SAF til hamingju með glæsilega ársskýrslu.

Hér má nálgast ársskýrslu SAF

 

„Er hægt að hafa það betra?“

 Góður rómur var gerður að erindum fyrirlesara

Á Menntamorgni ferðaþjónustunnar sem fram fór á Akureyri í gær sagði Sigrún Árnadóttir, verkefnastjóri hjá Höldi, frá góðu samstarfi við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og SÍMEY en Höldur tekur þátt í tilraunaverkefninu Fræðsla í ferðaþjónustu. Sigrún sagði kostina við samstarfið vera þá að hún fengi með því sérþekkingu, aðra sýn, stuðning, tengslanet og aðhald til að halda verkefninu gangandi. „Það er frábært að hafa þetta aðhald.“ Höldur var kosið Menntafyrirtæki ársins á dögunum og Sigrún sagði það alltaf hafa verið keppikefli hjá Höldi að gera betur. Nú þegar verðlaunin séu í höfn þá myndist enn meiri pressa á að gera betur, „Við verðum að standa okkur.“ Þá vísaði hún í ónefndan starfsmann og mat hans á námskeiði sem hann sótti á vegum fyrirtækisins: „Fíla öll þessi námskeið í tætlur, rosalega sáttur. Hjálpar mér mjög mikið í vinnunni.“ Sigrún sagði að sér hafi hlýnað í hjartanu að sjá þetta. „Er hægt að hafa það betra? Þetta er nákvæmlega það sem við viljum.“

Auk Sigrúnar komu fram Þórgnýr Dýrfjörð, framkvæmdastjóri Akureyrarstofu, Elías Bj. Gíslason forstöðumaður hjá Vakanum, Hildur Betty Kristjánsdóttir, Valdís A. Steingrímsdóttir og Hildur Oddsdóttir, sérfræðingar hjá Hæfnisetrinu. Fundinum lauk með þátttöku fundargesta í verkefninu Þjálfun í gestrisni.

Hæfnisetrið þakkar gestum kærlega fyrir komuna og þakkar jafnframt SAF, SÍMEY, Ferðamálastofu og Akureyrarstofu fyrir þátttöku í undirbúningi og framkvæmd fundarins.

Á mynd: Elías Bj. Gíslason, Hildur Betty Kristjánsdóttir, Valdís A. Steingrímsdóttir, Sigrún Árnadóttir og Þórgnýr Dýrfjörð.

Menntamorgun ferðaþjónustunnar á Akureyri – BEIN ÚTSENDING

Bein útsending frá fundaröðinni Okkar bestu hliðar – Menntamorgnar ferðaþjónustunnar sem fram fer miðvikudaginn 13. mars á Akureyri

Útsending hefst kl. 9.00, miðvikudaginn 13. mars 2019.

MENNTAMORGUN – BEIN ÚTSENDING

 

Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar gera með sér samstarfssamning

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, fyrir hönd Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, og Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi hafa undirritað samstarfssamning um heimsóknir og fræðslu til fyrirtækja í ferðaþjónustu. Er Símenntunarmiðstöðin þar með komin í hóp átta fræðsluaðila sem vinna með Hæfnisetrinu að því að auka hæfni starfsfólks ferðaþjónustunnar.

Við bjóðum Símenntunarmiðstöðina á Vesturlandi velkomna til samstarfs.

Ferðaþjónustufyrirtækjum á svæðinu er bent á að hafa samband við Símenntunarmiðstöðina óski þau eftir samtali um möguleika á þjálfun og fræðslu.

Á mynd: Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri FA, og Inga Dóra Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi, við undirritun samstarfssamningsins.