Stafræn umbreyting ferðaþjónustunnar

Stafræn umbreyting er geta einstaklinga, fyrirtækja og samfélagsins til að skilja, nota og njóta góðs af stafrænni tækni. Ferðaþjónustan hefur verið í fararbroddi þegar kemur að stafrænni umbreytingu með innleiðingum á bókunarvélum. Stafræn umbreyting er talin vera lykilatriði þegar kemur að samkeppnisforskoti og vexti innan ferðaþjónustunnar og því höfum við tekið saman tíu góð ráð fyrir minni og meðalstór fyrirtæki sem vert er að huga að áður en ákvörðun er tekin um stafræna umbreytingu.

1. Samræmið stafræna umbreyting við núverandi markmið og stefnur fyrirtækisins

Áður en ákvörðun um umbreytingu er tekin er gott að horfa til núverandi stöðu og hvort sett markmið og stefna henti umbreytingunni. Samræmist hún núverandi áherslum eða þarf jafnvel að endurmeta markmið og stefnur? Mælt er með því að ávinningur, hvort sem hann sé fjárhagslegur eða samfélagslegur, sé hvatinn að ákvörðun um stafræna umbreytingu. 

2. Hafið í forgangi að gögn séu miðlæg og nákvæm

Gæði gagna hafa mikil áhrif á árangur þegar kemur að stafrænni umbreytingu. Gott er að setja sér markmið að vera með öll gögn á einum stað t.d CRM-kerfi. Rauntímagögn styðja við upplýsta ákvarðanatöku og geta aukið skilvirkni og gæði. 

3. Fagnið breytingum

Jákvætt viðhorf til breytinga hjálpar fyrirtækjum og menningu þeirra að takast á við breytingar sem fylgja stafrænni umbreytingu. Gegnsæi og samvinna milli sviða/deilda/starfsfólks er ávinningur sem gjarnan greina meðal þeirra fyrirtækja sem hafa farið í gegnum innleiðingu. Vel upplýst starfsfólk sem þekkir stefnu og markmið fyrirtækisins er líklegast til þess að fagna breytingum. 

4. Verið tilbúin fyrir „Hybrid“ starfsfólk

Búast má við miklum breytingum á samsetningu starfsfólks á komandi árum. Í dag starfa fjórar mismunandi kynslóðir á vinnumarkaði með mismunandi þarfir og kröfur til stjórnenda og fyrirtækja þeirra. Starfsfólk í fjarvinnu mun verða sýnilegra á komandi árum sem minnkar þörf á föstum starfsstöðvum en eykur áherslur á öryggis- og upplýsingatækni fyrirtækja. 

5. Fáið sérfræðing til að aðstoða

Lítil og meðalstór fyrirtæki innan ferðaþjónustunnar sem stefna á stafræna umbreytingu geta leitað til sérfræðinga ef þekking er ekki til staðar innan fyrirtækisins í að meta hvaða tækifæri til vaxtar og aukinnar framlegðar liggja í þeirra rekstri við stafrænnar umbreytingu. Stjórnendur innan ferðaþjónustunnar eru gjarnan með marga hatta og því gott að leita til sérfræðings sem styður við fyrirtækið á meðan umbreyting á sér stað. 

6. Straumlínulagið verkferla

Endurskoðun verkferla þar sem horft er til tækifæra til þess að sjálfvirknivæða þá í heild eða hluta  getur lækkað launakostnað, aukið nákvæmni og gæði. 

7. Leggið áherslu á sjálfbærni við umbreytingu

Græn umbreyting felur í sér innleiðingu verkferla sem hafa jákvæð áhrif á umhverfið og/eða samfélagið.  Orkusparnaður skapast t.d með því að velja lausnir eins og 5G fram yfir 4G, en um 90% minni orkunýtingu er að ræða. Önnur leið er að setja inni í verkferla valkosti sem hafa jákvæð áhrif eins og að bjóða upp á að afþakka þrif strax við bókun gistingar. 

8. Notið CRM kerfi (Customer management system)

Með því að hafa öll gögn sem tengjast viðskiptavinum ykkar á einum stað er hægt að auka gæði og hækka þjónustustig til viðskiptavina. Með notkun gervigreindar (AI) með CRM kerfi er hægt að eiga persónulegri og “smartari” samskipti við viðskiptavini. Gervigreindin getur spá fyrir um innkaupahegðun, bætt ferli upplifunar fyrir viðskiptavini og greint áhættu t.d varðandi greiðsluleiðir. 

9. Tileinkið ykkur gagnadrifna ákvarðanatöku 

Mikill hraði einkennir ferðaþjónustuna og breytingar á rekstrarumhverfi gerast hratt. Til að bregðast við breytingum er nauðsynlegt að vera með rauntímagögn sem styðja við kvika ákvarðanatöku. Verðbreytingar á bókunarvélum innan dagsins er dæmi um hratt umhverfi, minnkuð eftirspurn vegna ytri skilyrða eða flug sem hefur verið hætt við, allt hefur þetta áhrif á rekstur og hraði skiptir höfuðmáli í samkeppni innan ferðaþjónustunnar. 

10. Fjárfestið í þjálfun

Eitt mikilvægasta atriðið í farsælli vegferð stafrænnar umbreytingar er þjálfun starfsfólks. Mikilvægt er að greina þá stafrænu hæfni sem starfsfólk býr yfir og bjóða upp á fræðslu sem upp á vantar. Mikið framboð er af fræðsluefni um stafræna umbreytingu og auk þess getur verið gott að leita til sérfræðings varðandi ráðleggingar um hvaða fræðsla hentar þínu fyrirtæki. 

Sem veganesti inn í stafræna umbreytingu er gott að hafa í huga að þetta snýst ekki bara um nýja tækni, heldur um að innleiða virðisaukandi verkferla, auka skilvirkni og stuðla að auknum vexti. 

Það er því mikilvægt að staldra við og hugleiða þessi tíu atrið áður en ákvörðun um stafræna umbreytingu er tekinn.  

Hafðu samband