Ferðaþjónustan sýni samfélagslega ábyrgð

Það er mikilvægt að vanda til verka í ferðaþjónustunni, eins og kom svo skýrt fram í erindum þeirra sem töluðu á viðburðinum sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík í vikunni. Við þurfum gæði og gott starfsfólk og við þurfum að gera starfsfólki kleift að auka hæfni sína. Þá er ekki hægt að líta framhjá því að allstór hópur erlendra starfsmanna er hvorki mælandi á íslensku né ensku og við því vill ferðaþjónustan bregðast með fagorðalistum sínum. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra voru sammála um mikilvægi þess að við sem þjóð héldum í okkar sérstöðu, tungumálið væri hluti af okkar ímynd og í því fælust tækifæri.

„Þetta er áskorun þegar við þurfum á svo mörgu starfsfólki að halda, við höfum það ekki hér þannig að það kemur annars staðar frá og það talar útlensku og hluti af því er að taka vel utan um það verkefni allt saman. En í mínum huga er þetta líka tæki fyrir ferðaþjónustuna til að sýna samfélagslega ábyrgð af því að við erum búin að ákveða að við ætlum að gera hvað við getum til að bjarga íslenskri tungu og viðhalda henni. Og ef stærsta atvinnugrein landsins tekur þátt í því þá er miklu líklegra að það takist þannig að ég fagna þessu verkefni mjög,“ sagði ferðamálaráðherra í erindi sínu.

Íslandshótel er byrjað að vinna með fagorðalistana og sagði Stefán Karl Snorrason, starfsþróunar- og gæðastjóri viðbrögðin vera mjög jákvæð.

„Málið er að það skiptir ekki máli hvaðan við komum, hvernig við lítum út, af hvaða kyni við erum, við erum öll eins inn við beinið […] við viljum fara eftir sömu gildum. Og það sem tengir okkur saman eru samskipti, hvernig við erum saman sem fjöldi, saman sem hópur og saman sem teymi og tæklum allt, og þess vegna fögnum við því innilega hjá Íslandshótelum að fá svona tæki eins og fagorðalistana til að efla þessi samskipti.“

Ionut-Daniel Stan, matreiðslumaður á Fosshótel Reykholt, sótti nýlega íslenskunámskeið á hótelinu með samstarfsfólki sínu þar sem notast var meðal annars við fagorðalistana. Daniel, eins og hann er allajafna kallaður, er 25 ára og frá Rúmeníu. Hann er með meistaragráðu í ferðaþjónustu og kom til Íslands árið 2015 til að læra. Eftir námið fékk hann atvinnutilboð og starfaði fyrst á næturvöktum en síðan um tíma sem yfirkokkur á hótelinu. Námskeiðið reyndist honum hagnýtt og fókusinn var á fagið, hann lærði ýmis vinnutengd orð og hann lærði að þekkja ferðamannastaðina í kring, sögu þeirra og menningu. Og allir fengu að æfa sig. „Og þó við séum ekki fær um að svara á íslensku eða eiga í samræðum á íslensku þá skiljum við gestina okkar miklu betur. Við skiljum ef einhver biður um mjólk í kaffið sitt á íslensku.“ Að hans sögn er starfsfólkið orðið miklu öruggara að svara: „Afsakið, ég tala bara mjög litla íslensku, ég er að læra.“ Og áhugi stjórnenda hafði mikið að segja, námskeiðið var haldið á hótelinu á vinnutíma og allt var gert til að gera starfsfólkinu kleift að sækja námskeiðið. „Og við viljum halda áfram að læra íslensku, góða íslensku,“ sagði Daniel að lokum og uppskar lófaklapp gesta.

Hafðu samband