Ferðamálaráðherra og menntamálaráðherra koma saman með ferðaþjónustunni

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra gera samspil atvinnulífs og menntamála að umfjöllunarefni á viðburði sem fram fer á morgun, þriðjudaginn 19. mars kl. 14.45 á Grand hóteli Reykjavík, Hvammi. Það eru Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og SAF sem boða til viðburðarins.

Ferðamálaráðherra setti Hæfnisetur ferðaþjónustunnar á fót árið 2017 en það er samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvalda um heildstæðar lausnir og úrbætur til að auka hæfni starfsmanna í ferðaþjónustu á Íslandi. Starfsemin er tryggð til ársloka 2020 en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fjármagnar verkefnið.

Menntamálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi með það að markmiði að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Við þessu vill ferðaþjónustan bregðast. Á viðburðinum verður kynnt verkefni Hæfniseturs ferðaþjónustunnar og stjórnvalda til að efla samskipti, þjónustu og íslenskukunnáttu í ferðaþjónustu hér á landi.

Dagskrá:

  • Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF
  • Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra
  • Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar
  • Stefán Karl Snorrason, starfsþróunar- og gæðastjóri hjá Íslandshótelum, og Ionut-Daniel Stan, matreiðslumaður á Fosshóteli Reykholti, frá Rúmeníu

Hafðu samband