• Stuðningsefni
  • Seigluráð fyrir stjórnendur – Vissan í óvissunni

Seigluráð fyrir stjórnendur – Vissan í óvissunni

Seigla er hæfni einstaklinga og hópa til að sigrast á mótlæti. Við eflum líkamlegt úthald ef við æfum markvisst og á sama hátt eflum við andlegan styrk ef við þjálfum seigluvöðvann. Seigla snýst ekki endilega um að harka af sér með bros á vör í gegnum erfitt tímabil, heldur að viðurkenna erfiðleika en samt sem áður finna innri hvatningu, von og bjartsýni til að halda áfram. Hér finnur þú góð ráð og æfingar sem hjálpa þér að þjálfa seigluvöðvann og vera öðrum hvatning.

1. Sjáðu fyrir þér endamark og skrefin til að komast þangað

Hver er framtíðarsýn fyrirtækisins og hvernig kemstu þangað? Settu þér skýrt og raunsætt endamarkmið og útlistaðu skrefin sem koma þér þangað. Einbeittu þér að næsta skrefi í staðinn fyrir að einblína eingöngu á lokamarkmiðið.

Æfing:

Náðu þér í blað og penna og spurðu sjálfa/n þig: Hver er núverandi staða fyrirtækisins og hvert viljum við komast? Skrifaðu niður eitt skýrt og raunsætt endamarkmið, með tímasetningu.

Brjóttu markmiðið niður í smærri markmið, vörðurnar á leiðinni, það er leiðarvísirinn. Einbeittu þér að smærri markmiðunum í staðinn fyrir að horfa aðeins á lokamarkmiðið. Mundu að „allt eða ekkert“ hugarfarið er ekki sjálfbært, það er betra að hafa í huga að tvö skref aftur og eitt skref áfram er betra en að gefast upp.

Komdu þér þægilega fyrir í einrúmi. Lokaðu augunum og leyfðu þér að sjá fyrir þér hvernig þú stígur hvert skref, nærð að komast að hverri vörðu og að lokum í mark. Hvernig líður þér þegar þú nærð hverjum áfanga fyrir sig? Leyfðu þér að sjá aðstæðurnar raunverulega fyrir þér.  

2. Skoðaðu hindranir á leiðinni – Hvernig ætlar þú að yfirstíga þær?

Rýndu í óvissuna og veltu upp mögulegum hindrunum að settu marki. Í staðinn fyrir að einblína á hindranirnar sjálfar, einbeittu þér að því hvernig þú munt takast á við áskoranirnar. Aðlögunarhæfni og útsjónarsemi er lykillinn að lausnamiðaðri nálgun.

Æfing:

Hvað gæti mögulega komið í veg fyrir að markmiðum þínum sé náð? Listaðu upp allar mögulegar leiðir til að yfirstíga hindranir sem gætu komið upp í átt að settu markmiði, íhugaðu hvernig þú ætlar að bregðast við áskorunum og finna lausnir. 

3. Veldu bjartsýnissjónaukann þegar horft er fram á við

Veldu bjartsýna og vongóða sjónaukann í staðinn fyrir þann svartsýna þegar horft er fram á veginn. Þetta snýst ekki um að hunsa neikvæðar hugsanir heldur að setja athygli á hvað gæti farið vel í staðinn fyrir að einblína á hvað gæti farið illa. Það er auðveldara að leita í neikvæðar hugsanir heldur en jákvæðar, þess vegna er mikilvægt að þjálfa hugsunina. Bjartsýni og jákvæðni eykur sköpunargleði og ýtir undir lausnamiðaða hugsun.

Æfing:

Hvað er það besta sem gæti gerst? Hvaða tækifæri felast í núverandi aðstæðum? Eru tækifæri framundan? Hvernig getum við gert það besta úr aðstæðum og jafnvel komið sterkari út? Íhugaðu svörin við þessu sjálf/ur en enn öflugra er að taka þessar samræður með samstarfsaðilum og starfsfólki þar sem allar hugmyndir eru velkomnar á borðið.

4. Trúðu á þig og teymið

Hafðu trú á þér, fyrirtækinu og starfsfólkinu. Sýndu þér og öðrum skilning og leggðu áherslu á að byggja upp sjálfstraust starfsfólks, til dæmis með því að veita uppbyggilega endurgjöf, hrós þegar við á og koma auga á og efla styrkleika starfsfólks. Gefðu starfsfólki tækifæri til að tjá skoðanir sínar, hafa áhrif, vera hluti af samræðum sem snerta framtíðarsýn fyrirtækisins og eiga hlutdeild í þeim ákvörðunum sem teknar eru. Starfsþjálfun, fræðsla og stuðningur frá öðrum eykur trú á eigin hæfni.  

5. Skapaðu sterkt stuðningsnet

Sterkt stuðningsnet getur gripið stjórnendur og starfsfólk á óvissutímum. Hugsaðu um þitt eigið stuðningsnet – hver veitir þér leiðsögn og stuðning? Hvað hvetur þig áfram? Getur starfsfólk leitað í stuðning á vinnustaðnum? Byggðu upp andrúmsloft þar sem traust ríkir og hægt er að tala á hreinskilinn og heiðarlegan hátt um það sem hvílir á hverju sinni. Myndaðu traust með því að hlusta á þarfir starfsfólks og bregðast við eftir bestu getu.

Hafðu samband