Rómantíska ævintýraferðin

SAGAN:

Þessi ummæli voru sett á Booking.com: „Ég og kærastan mín fórum í langþráða ferð til Íslands til að sjá norðurljósin og stórbrotna náttúru landsins. Anddyrið og móttakan á hótelinu voru skínandi hrein og snyrtileg þegar við komum. Um leið og móttökustarfsfólkið sá hvað ég er hávaxinn bauð það okkur stærra rúm. Við fengum líka að fara strax í herbergið þótt við værum of snemma á ferðinni. Svona hlýjar móttökur fengu okkur til að skynja að við vorum hjartanlega velkomin. Við áttum bókaða norðurljósaferð en einhverra hluta vegna var henni aflýst. Starfsfólkið í gestamóttökunni heyrði af þessu og bauðst strax til að hafa samband við rútufyrirtækið sem þau skiptu við og panta ferð fyrir okkur sama kvöldið. Við upplifðum yndislega kvöldferð með norðurljósum, stjörnum og fullu tungli. Þetta var eitt það magnaðasta sem við höfum upplifað. Daginn eftir var upplifun okkar af hótelinu hins vegar allt önnur! Við biðum lengi í móttökunni eftir aðstoð við að panta leigubíl. Starfsmaðurinn brosti ekki til okkar né annarra gesta, var með krosslagðar hendur og þungar brúnir. Hann pantaði bílinn en sagði okkur að við ættum bara að panta leigubíl sjálf næst.“

VERKEFNIÐ:

  • Hvaða áhrif hefur aðkoma í móttökunni á gesti?
  • Hvernig fór starfsfólkið fram úr væntingum gestanna við komuna á hótelið?
  • Ræðið áhrif líkamstjáningar og svipbrigða á upplifun gesta.
  • Hvað hefði móttökustarfsmaðurinn sem pantaði leigubílinn mátt gera betur?

 

Raundæmi frá Gerum betur.

Hafðu samband