Til að auðvelda fyrirtækjum og starfsfólki innan ferðaþjónustunnar að finna fræðslu við hæfi hefur Hæfnisetur ferðaþjónustunnar opnað svokallað fræðslutorg á heimasíðu sinni, hæfni.is. Á fræðslutorginu má finna ýmis hagnýt námskeið á sviði ferðaþjónustunnar og fjölbreytt fræðslu- og stuðningsefni sem gagnast fyrirtækjum við að efla fræðslu og starfsánægju starfsfólks. Þar er m.a. hægt að nálgast:
- Fræðslugátt með úrvali námskeiða í boði ýmissa fræðsluaðila. Hægt er að leita eftir fræðslu innan sjö sviða ferðaþjónustunnar, jafnframt gjaldlausri fræðslu og/eða stafrænni. Fræðsluaðilar eru hvattir til að auglýsa námskeið fyrir ferðaþjónustuna í fræðslugáttinni.
- Þjálfun í gestrisni er efni ætlað til þjálfunar og fræðslu á vinnustað. Það hvetur til samtals og samvinnu og er auðvelt að vinna með það á fjarfundum. Leiðbeiningar fylgja efninu, skref fyrir skref.
- 8 góð ráð fyrir stafræna fræðslu til að tryggja árangur
- Leiðbeiningar og ráð til fyrirtækja á tímum Covid-19
- Leiðir til fjármögnunar fræðslu
Samhliða fræðslutorginu hefur verkfærakista ferðaþjónustunnar verið uppfærð en í henni má finna ýmis tæki til að koma á fræðslu innan fyrirtækja og mælikvarða til að meta árangurinn af henni.
Fræðslutorginu er ætlað að vaxa og þróast á komandi misserum.
Skoða fræðslutorg ferðaþjónustunnar hér.
Skoða heimasíðu Hæfnisetursins hér.