Starfsfólk
Atvinnurekendur
Atvinnuleyfi
Starfsmaður er umsækjandi, atvinnurekandi leggur umsóknina ásamt fylgigögnum inn til Útlendingastofnunar áður en viðkomandi kemur til landsins
Atvinnurekandi sem vill ráða erlendan ríkisborgara til starfa þarf að fá útgefið tímabundið atvinnuleyfi áður en viðkomandi hefur störf. Tímabundið atvinnuleyfi þarf að liggja fyrir áður en erlendi ríkisborgarinn kemur til landsins og er leyfið venjulega gefið út til eins árs í senn en þó aldrei til lengri tíma en dvalarleyfi eða ráðningarsamningur gerir ráð fyrir. Það er Vinnumálastofnun sem tekur við gögnum frá Útlendingastofnun og veitir atvinnuleyfið.
Eftir að erlendi ríkisborgarinn/starfsmaðurinn kemur til landsins þarf hann að mæta til Útlendingarstofnunar (sýslumanns utan höfuðborgarsvæðisins) með vegabréf og láta taka mynd af sér í dvalarskírteini og klára skráninguna.
Atvinnuleyfið er skilyrt við tiltekinn atvinnurekanda, en vilji starfsmaður skipta um vinnu þarf að sækja um nýtt atvinnuleyfi. Ekki má hefja starf hjá nýjum atvinnurekanda fyrr en nýtt leyfi liggur fyrir.
Tímabundið atvinnuleyfi
Starfsmaður sækir um með aðstoð atvinnurekanda sem þarf að undirrita umsókn og skila henni inn ásamt fylgigögnum áður en viðkomandi kemur til landsins
Umsókn um tímabundið atvinnuleyfi ásamt öllum nauðsynlegum gögnum skal skila til Útlendingastofnunar Dalvegi 18, 201 Kópavogi.
Umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi þarf að skila inn til Útlendingastofnunar fjórum vikum áður en fyrra leyfi rennur út.
Við framlengingu þarf að uppfylla öll skilyrði hins tímabundna atvinnuleyfis og atvinnurekandi þarf að hafa staðið skil á staðgreiðslu skatta og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa erlenda starfsmannsins.
Grunnskilyrði fyrir veitingu leyfis:
- Ráðningarsamningur milli atvinnurekenda og starfsmans undirritaður af atvinnurekenda og starfsmanni.
- Umsögn viðeigandi stéttarfélags. Sjá reit IV í umsókn
Dvalarleyfi
Starfsmaður er umsækjandi, atvinnurekandi leggur umsókn ásamt fylgigögnum inn til Útlendingastofnunar áður en viðkomandi kemur til landsins
Það er forsenda útgáfu dvalarleyfis vegna atvinnuþátttöku að atvinnuleyfi hafi verið samþykkt.
Til að fá dvalarleyfi þarf að leggja fram öll nauðsynleg gögn í því formi sem krafist er.
Þegar atvinnurekandi ætlar að ráða erlendan ríkisborgara til vinnu, þá aðstoðar hann viðkomandi starfsmann að sækja um dvalarleyfi. Sótt er um þessi leyfi með því að fylla út þar til gerð eyðublöð hjá Útlendingastofnun.
Heimilt er að leggja umsókn fram og greiða fyrir hana í afgreiðslu Útlendingastofnunar eða hjá sýslumönnum utan höfuðborgarsvæðisins.
Erlendi ríkisborgarinn/starfsmaðurinn þarf alltaf að mæta til Útlendingastofnunar, Dalvegi 18, 201 Kópavogi, eftir komuna til landsins í eigin persónu og framvísa vegabréfi.
Áður en dvalarleyfi er gefið út þarf lögheimili umsækjanda að vera skráð hjá Þjóðskrá Íslands. Ef umsækjandi skráir ekki lögheimili sitt á umsókn um dvalarleyfi þarf hann að tilkynna dvalarstað sinn til skráningar á sérstöku eyðublaði áður en hægt er að gefa út dvalarskírteini.
Myndataka fyrir dvalarleyfiskort fer fram eftir að dvalarleyfi er veitt og þarf erlendi ríkisborgarinn/starfsmaðurinn að mæta í eigin persónu til Útlendingastofnunar. Panta þarf tíma.
Dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku skiptist í fjóra flokka:
- Dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar
- Dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki
- Dvalarleyfi fyrir íþróttafólk
- Dvalarleyfi fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli samstarfs eða þjónustusamning
Mismunandi réttindi fylgja hverju dvalarleyfi
Endurnýjun dvalarleyfis
Sækja þarf um endurnýjun dvalarleyfis að minnsta kosti fjórum vikum áður en gildistími fyrra dvalarleyfis rennur út.
Dvalarleyfi sjálboðaliða
Dvalarleyfi fyrir sjálfboðaliða er fyrir einstaklinga eldri en 18 ára, sem ætla að starfa fyrir frjáls félagasamtök sem starfa að góðgerðar- eða mannúðarmálum. Félagasamtökin skulu ekki vera rekin í hagnaðarskyni og skulu undanþegin skattskyldu.
Almennt er gert ráð fyrir að samtök sem falli hér undir starfi á alþjóðavísu.
Dvalarleyfi vegna vistráðningar (au-pair) er fyrir einstaklinga á aldrinum 18 til 25 ára sem vilja starfa sem au pair á Íslandi.
Heilsufarsskoðun
Starfsmaður ber ábyrgð á að panta tíma
Erlendi ríkisborgarinn/starfsmaðurinn þarf að fara í heilsufarsskoðun til að ljúka skráningu inn í landið. Á höfuðborgasvæðinu á Göngudeild sóttvarna, Þönglabakka 1, 109 Reykjavík. Utan höfuðborgarsvæðisins á heilsugæslustöðvum og panta sérstaka skoðun.
Bankareikningur
Starfsmaður stofnar bankareikning
Til að geta stofnað bankareikning þarf viðkomandi að vera kominn með kennitölu. Hægt er að stofna bankareikning með rafrænum skilríkjum eða með því að panta tíma í útibúi og þar er hægt að fá aðstoð við að sækja um rafræn skilríki.
Íslykill – rafræn skilríki
Starfsmaður sækir um íslykil, þarf að hafa kennitölu til þess
Íslykill er lykilorð sem tengt er kennitölu einstaklings. Mikilvægt er að starfsmaður hafi íslykil til að geta skráð sig inn á þá vefi stofnana, sveitarfélaga, félagasamtaka og fyrirtækja sem hann er í samskiptum við vegna starfs síns hér á landi.
Hægt er að fá íslykil í heimabanka eða í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands, Borgartúni 21. Jafnframt er hægt að panta íslykil hjá þjónustuaðila, Stafrænu Íslandi
Sjúkratryggingar
Starfsmaður sækir um
Til að fá dvalarleyfi þarf starfsmaður að vera sjúkratryggður hjá íslensku tryggingafélagi eða erlendu tryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Íslandi (sjá lista á heimasíðu FME).
Leggja þarf fram staðfestingu frá tryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Íslandi á því að umsækjandi hafi keypt sjúkratryggingu til sex mánaða að lágmarksupphæð 2.000.000 kr.
Íslensk tryggingafélög senda staðfestingu á sjúkratryggingu beint til Útlendingastofnunar þegar hún hefur verið samþykkt og greidd (sjá lista yfir félögin á heimasíðu Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, undir liðnum vátryggingafélög). Hafi sjúkratrygging verið keypt af erlendu tryggingafélagi með starfsleyfi hér á landi þarf umsækjandi sjálfur að leggja fram staðfestingu. Fjármálaeftirlit Seðlabankans heldur skrá yfir erlend vátryggingafélög (sjá lista yfir félögin á heimasíðu Fjármálaeftirlits Seðlabankans, undir liðnum Erlend vátryggingafélög).
Þegar sex mánuðir eru liðnir frá lögheimilisskráningu hefur umsækjandi áunnið sér rétt til að vera sjúkratryggður hér á landi samkvæmt almannatryggingakerfi Íslands
Sakavottorð frá heimalandi
Óski atvinnurekandi þess skal starfsmaður leggja fram sakavottorð sem gefið er út af heimalandi. Sakavottorð má ekki vera eldra en 12 mánaða þegar það er lagt fram. Heimilt er að leggja fram aftrit af sakavottorði og ekki er gerð krafa um að það sé lögformlega staðfest. Ef ástæða er til getur Útlendingastofnun óskað eftir vottuðu frumriti sakavottorðs eða að lögð séu fram sakavottorð frá fleiri ríkjum en búseturíki.
Ráðningarsamningur og vottorð um starfstímabil á Íslandi
Atvinnurekandi fyllir út ráðningarsamning, starfsmaður skrifar undir
Hér má nálgast annars vegar form fyrir ráðningarsamning og hins vegar vottorð um starfstímabil fyrir starfsmanninn þegar hann lýkur störfum og óskar eftir því.
Form ráðningarsamnings fyrir erlenda ríkisborgara sem koma hingað til starfa og aðgengilegt er á vef Vinnumálastofnunar. Á vinnumarkaðsvef SA geta félagsmenn Samtaka atvinnulífsins jafnframt nálgast fjölbreytt ráðningarform á ensku.
Vottorð um starfstímabil á Íslandi Leiðbeiningar við útfyllingu staðfestingar á starfstímabili.
Vinnustaðaskírteini
Atvinnurekandi skal útbúa eða láta útbúa vinnustaðaskírteini fyrir starfsmenn sína sem hefur að geyma þær upplýsingar sem tilgreindar eru í lögum um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum og samkomulagi ASÍ og SA.
Á vefnum skirteini.is má fá frekari upplýsingar um gerð og efni vinnustaðaskírteinanna. Þar má einnig nálgast form fyrir vinnustaðaskírteini og upplýsingar um aðila sem bjóða upp á prentun plastkorta.
Viðurkenning erlendra starfsréttinda
Starfsmaður sækir um
Umsækjendur um mat og viðurkenningu á erlendri starfsmenntun snúi sér til Iðunnar fræðsluseturs (Inga Birna Antonsdóttir, inga@idan.is).
Iðan fræðslusetur sér eingöngu um mat á starfsréttindum matvælagreina og vegna framreiðslu. Umsækjendur þurfa að hafa lokið að lágmarki þriggja ára námi og þriggja ára starfsreynslu eftir námslok til að fá réttindi sín metin. Önnur menntun, svo sem hótelstjórnun, sér Háskóli Íslands um að meta.
Að flytja frá Íslandi
Starfsmaður ber ábyrgð á, en atvinnurekandi upplýsir hann
Flutning frá Íslandi þarf að tilkynna til Þjóðskrár Íslands innan sjö daga. Sjá nánari upplýsingar á síðu Fjölmenningarseturs (e. Multicultural Information Centre) um það sem þarf að gera á meðan starfsmaðurinn er enn á Íslandi.