Kynnisferðir – Reykjavík Excursions er fyrirtæki sem býður upp á úrval ferða og afþreyingu fyrir einstaklinga og hópa. Starfsemin er fjölbreytt, en hún felst m.a. í rekstri ferðaskrifstofu, bílaleigu, langferðabíla og strætisvagna. Félagið rekur líka þvottastöð og bifreiðaverkstæði. Kynnisferðir hafa rekið Flugrútuna milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar síðan 1979. Félagið fagnar 50 ára starfsafmæli á þessu ári.
Kynnisferðir – Reykjavík Excursions er stolt af því að vera fyrsta íslenska ferðaskrifstofan sem hlotið hefur ISO14001 vottun fyrir umhverfisstjórnun frá British Standard Institute (BSI). Fyrirtækið er einnig með vottun frá Vakanum, bæði fyrir gæðakerfið og umhverfiskerfið, auk þess að vera með jafnlaunavottun ÍST85.
Hjá fyrirtækinu starfa um 580 manns á ársgrundvelli og yfir sumarmánuðina getur fjöldi starfsmanna farið upp í 650. Mikill meirihluti starfsmanna er íslenskur, en hlutfall erlendra starfsmanna hefur aukist undanfarin ár. Er þar um að ræða bílstjóra, verkstæðismenn og nokkra leiðsögumenn. Allir hafa starfsmennirnir staðið sig með afbrigðum vel í annars krefjandi og hröðu umhverfi ferðaþjónustunnar. Höfuðstöðvar Kynnisferða – Reykjavík Excursions eru í Klettagörðum 12, en þar er bílaverkstæðið og þvottastöðin, en einnig yfirstjórn, sölu- og markaðsdeild, gæða-, mannauðs- og umhverfisdeild, fjárreiðu- og launadeild, tölvudeild, þjónustuver og Bílaleiga Kynnisferða. Allar ferðir Kynnisferða – Reykjavik Excursions hefjast við BSÍ, en þar er líka rekstrardeild félagsins ásamt afgreiðslu og miðasölu. Þriðja starfsstöðin er í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en þar er stunduð upplýsingagjöf og miðasala, auk þess sem starfsmenn þar sjá um hluta bókana fyrir söludeildina.
Vilborg Magnúsdóttir sér um fræðslumál fyrirtækisins. Hún segir að fræðsla sé og eigi að vera stór þáttur af starfseminni. Fyrir nokkrum árum fengu Kynnisferðir Fræðslustjóra að láni þar sem rýnt var í þarfir og innleidd var ítarlegri fræðsluáætlun en áður hafði verið stuðst við. Þó ýmislegt hafi breyst síðan þá eru enn ákveðnir þættir í fræðslunni sem eru hluti af grunnfræðslu. Vilborg segir að dæmi um reglubundna fræðslu er almenn nýliðafræðsla, fræðsla í tengslum við umhverfisstjórnunarstaðalinn ISO14001, upprifjunarnámskeið í skyndihjálp. Sérhæfð námskeið sem hæfa ákveðnum hópum eru efnanámskeið, eldvarnarnámskeið, námskeið í akstursfærni, sérþekking í tengslum við rafbúnað bíla, keðjunámskeið, námskeið er varðar ógnandi hegðun, þjónustunámskeið og kennsla á þau kerfi sem hver starfsmannahópur þarf að vinna með. Hjá félaginu starfar bæði öryggisráð og öryggisnefnd og fræðsla er stór þáttur í forvörnum og öryggismálum. Upplýsingafundir eru haldnir varðandi tjón og hverskonar slys. Þá hefur ákveðinn hópur starfsmanna í samstarfi við Save Travelfengið fræðslu er varðar öryggi ferðamanna. Með það í huga er nú verið að uppfæra heimasíðu félagsins til að koma skilaboðum um öryggi ferðamanna á framfæri. Kynnisferðaskólinn hefur haldið utan um endurmenntun bílstjóra og hefur sú fræðsla verið mjög regluleg á undanförnum mánuðum. Tæplega 40 námskeið hafa verið haldin hingað til. Félagið horfir meira í átt til rafrænnar fræðslu sem er tímanna tákn og lítur félagið á það sem spennandi tækifæri og áskorun. Að lokum segir Vilborg að Kynnisferðir – Reykjavik Excursions leiti stöðugt að leiðum og tækifærum til að gera betur og til að sofna ekki á verðinum. Markmiðið er að allir starfsmenn geti þróað sig í starfi og sem einstaklingar og eflist við það að læra meira og bæta stöðugt við þekkingu og færni.