Atvinnurekendum ber lagaleg skylda til að gera áætlun um öryggi og heilbrigði. Þar kemur m.a. fram hvaða ferli unnið er eftir ef kvörtun berst eða grunur er um áreitni, einelti eða ofbeldi á vinnustaðnum. Mikilvægt er að greina frá því til hvers/hverra eigi að leita til að láta vita (t.d. til næsta yfirmanns, mannauðsstjóra, annarra stjórnenda, trúnaðarmanns eða vinnufélaga sem aðstoða við að koma málum á framfæri), hvaða viðbrögðum megi búast við á vinnustaðnum og hvaða stuðningur sé í boði. Við gerð viðbragðsáætlunar er hægt að nýta sér gátlista Vinnueftirlitsins.
Á heimasíðu Vinnueftirlitsins er hægt að nálgast flæðirit sem leiðir stjórnendur í gegnum ferlið og styður við þegar upp koma mál er varða einelti, áreitni eða ofbeldi.
- Þegar kvörtun eða ábending berst þarf stjórnandi að meta aðstæður og leggja mat á hvort um sé að ræða einelti, áreitni eða ofbeldi, t.d. með hliðsjón af ofangreindum skilgreiningum.
- Gefa þarf hlutaðeigandi starfsfólki kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, hver í sínu lagi, og meta hvort þurfi að bregðast við aðstæðum án tafar til að koma í veg fyrir frekari vanda. Athuga þarf hvort að þolandi sé reiðubúinn til þess að veita upplýsingar um málið og vilji fara í mál.
- Grípa þarf til aðgerða og styrkja forvarnir, hvort sem niðurstaðan var að um einelti, áreitni eða ofbeldi var að ræða eða ekki. Dæmi um aðgerð getur verið endurskipulagning á vinnuskipulagi og vinnuaðstæðum, þar á meðal tilfærsla í starfi, eða samtöl og sáttameðferð.