Hvernig á að stuðla að góðri öryggismenningu?

Menntamorgunn ferðaþjónustunnar fór fram í morgun í streymi þar sem mikilvægt málefni var tekið fyrir sem varðar okkur öll – öryggi í ferðaþjónustu og hvernig stjórnendur geta stuðlað að góðri öryggismenningu.

Gísli Nils Einarsson, framkvæmdastjóri Öryggisstjórnunar byrjaði á innihaldsríku erindi um áskoranir og tækifæri í öryggismálum í ferðaþjónustu. Á eftir honum fræddi Dagbjartur Brynjarsson, sérfræðingur í öryggismálum hjá Ferðamálastofu áhorfendur um gerð öryggisáætlana fyrir ferðir áður en Reynir Guðjónsson, öryggisstjóri Orkuveitunnar kom með hugvekju varðandi ábyrgð stjórnenda í að skapa öryggismenningu.

Að lokum fengum við að heyra reynslusögu frá Hauki Herbertssyni, rekstrarstjóra hjá Mountaineers of Iceland, um atvik sem hafa komið upp hjá þeim og hvernig þeir hafa nýtt þann lærdóm til að miðla til annarra fyrirtækja og þjálfa starfsfólkið sitt fyrir raunaðstæður. 

Upptöku af Menntamorgni má nálgast undir viðburðahnappnum hér efst á síðunni.

Hæfnisetrið kynnti nýtt stuðningsefni um öryggismenningu

Bryndís Skarphéðinsdóttir, starfsmaður Hæfnisetursins var fundarstjóri og kynnti nýtt stuðningsefni sem Hæfnisetrið var að birta hér á hæfni.is – 6 skref í átt að góðri öryggismenningu. Við hvetjum alla stjórnendur til að kynna sér skrefin og innleiða þau í sínu daglega starfi.

Reynir Guðjónsson flytur erindi sitt. Menntamorgnar ferðaþjónustunnar eru samstarfsverkefni Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, Samtaka ferðaþjónustunnar og Markaðsstofa landshlutanna.

Hafðu samband