Ársskýrsla Hæfniseturs ferðaþjónustunnar fyrir árið 2021 er komin út

Ráðherra ferðamála, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, rýnir í framtíð ferðaþjónustunnar í nýútkominni ársskýrslu Hæfnisetursins. Hún segir gott starfsfólk vera lykilatriði í upplifun ferðamanna og það þurfi að setja mönnun, hæfni og fagmennsku í forgrunn til að viðspyrnan verði sem árangursríkust.   

„Ferðaþjónusta er þekkingargrein sem byggist á starfsfólki, hæfni þess og þekkingu. Til að tryggja að ferðamenn fái hér áfram frábæra þjónustu og að upplifun þeirra verði ánægjuleg og einstök þarf að setja mönnun, hæfni og fagmennsku í forgrunn. Ein afleiðing heimsfaraldursins á ferðaþjónustuna er sú að reynslumikið starfsfólk hefur horfið úr greininni, þar með hefur mikilvæg þekking og reynsla tapast. Því er enn mikilvægara en áður að byggja upp og auka þekkingu og hæfni til að viðspyrnan verði sem árangursríkust.“

Eitt af verkefnum Hæfnisetursins frá 2018 hefur verið þróun heildstæðrar námslínu í ferðaþjónustu. Uppbygging á náminu hefur gengið vel og nú hefur verið skilað inn námskrám til vottunar hjá Menntamálastofnun. Uppbygging og innihald námskráa hefur verið kynnt framhaldsskólum og símenntunarmiðstöðvum, viðbrögðin eru jákvæð en óljóst hvort og hvar námið verður í boði. Það verður eitt af verkefnum Hæfnisetursins næsta árs að fylgja því eftir.

Í ársskýrslunni gefst gott yfirlit yfir verkefni Hæfnisetursins og árangurinn af starfinu. Helstu verkefni á árinu voru:

  • Fræðsla til framtíðar – þjónusta og ráðgjöf við fyrirtæki
  • Þróun stafrænna verkfæra fyrir fræðslu
  • Þróun heildstæðrar námslínu í ferðaþjónustu
  • Mótun samvinnu Hæfniseturs ferðaþjónustunnar og áfangastaðastofa

Sú nýbreytni er höfð á ársskýrslunni í ár að hún kemur eingöngu út rafrænt.

Smelltu á mynd til að nálgast ársskýrslu Hæfniseturs ferðaþjónustunnar.

Hafðu samband