Nýjar leiðbeiningar – Erlent starfsfólk og ráðningarferlið

Erlendir ríkisborgarar sem koma hingað til starfa þurfa að sækja um margs konar leyfi og réttindi til að fá að starfa hér. Til að gefa atvinnurekendum yfirsýn yfir það sem þarf að gera og auðvelda aðgengi að upplýsingum hefur Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, í samstarfi við Fjölmenningarsetur, SAF, ASÍ og ferðaþjónustufyrirtæki, sett saman leiðbeiningar fyrir báða aðila til að fylgja.

Mismunandi reglur gilda fyrir erlenda ríkisborgara eftir því hvort þeir koma frá aðildarríki innan eða utan EES/EFTA og eru leiðbeiningarnar settar upp með hliðsjón af því. Þar má jafnframt finna gagnlegar upplýsingar sem flýtt geta fyrir ráðningarferlinu og aðlögun starfsmannsins á íslenskum vinnumarkaði.

Efnið er aðgengilegt á fjölda tungumála á heimasíðu Hæfnisetursins, hæfni.is. Eru atvinnurekendur hvatttir til þess að vísa erlendu starfsfólki sínu á það til upplýsinga og undirbúnings. Atvinnurekendur ættu jafnframt að kynna sér efnið vel svo þeir geti verið nýju starfsfólki til halds og trausts í ráðningarferlinu.

Leiðbeiningarnar voru kynntar á Menntamorgni ferðaþjónustunnar sem fram fór á dögunum.

Sækja leiðbeiningarnar.

Sækja upptöku frá Menntamorgni ferðaþjónustunnar þar sem leiðbeiningarnar voru kynntar.

Hafðu samband