Samstarf ferðaþjónustafyrirtækja gríðarlega mikilvægt fyrir farveg greinarinnar

Á Menntamorgni ferðaþjónustunnar sem fram fór á dögunum kynnti Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, vísbendingar um breytingar á ferðatilhögun og hegðun ferðamanna og vitnaði þar í nýlega skýrslu frá World Travel and Tourism council.

Hann sagði ferðamenn leita í auknum mæli að sjálfstæðari ferðamáta, náttúruferðmennsku, öryggi og áreiðanleika. „Þeir eru tilbúnir að kaupa öryggi og vilja ekki fara út í neina óvissu,“ sagði Gunnar. Þess vegna sé lykilatriði að fyrirtæki miðli upplýsingum um aðgerðir sínar og geri verkferla sýnilega fyrir framtíðar viðskiptavinum. Rík áhersla sé lögð á snertilausar og rafrænar lausnir og þannig hafi kórónuvírusinn hraðað breytingum sem hafi verið yfirvofandi vegna fjórðu iðnbyltingarinnar. Gunnar sagði greinina þurfa að styrkja ímynd sína sem atvinnugrein sem býður upp á fjölbreytta atvinnumöguleika og fjölbreytt tækifæri til starfsþróunar. Grunnur að endurreisn ferðaþjónustunnar sé hins vegar sjálfbærni. „Ferðaþjónustan snertir mörg svið samfélagsins og það þarf að byrja að hugsa ferðaþjónustuna sem hluta af fleiri þáttum en við höfum verið að gera hingað til,“ sagði Gunnar og talaði um að nú sé tækifæri til að endurhugsa tengsl ferðaþjónustunnar við náttúru, samfélag og menningu. Hann sagði ferðaþjónustuaðila sem hafa sitt á hreinu og ganga af ábyrgð um þessar auðlindir séu líklegri til að koma betur út úr heimsfaraldrinum. Þar sé samstarf ferðaþjónustafyrirtækja gríðarlega mikilvægt fyrir farveg greinarinnar.

Menntamorgunn ferðaþjónustunnar fór fram í streymi þann 14. desember sl. undir yfirskriftinni Ferðamennska morgundagsins. Rætt var um breytingar og tækifæri í ferðaþjónustu á Íslandi í kjölfar heimsfaraldurs. Auk Gunnars komu fram í pallborði stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja sem miðluðu af reynslu sinni og sögðu frá því hvernig þeir ætla að undirbúa fyrirtæki og starfsfólk fyrir komandi tíma. 

Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Visitor, sagði fyrirtæki eiga erfitt með að aðlaga sig breyttu umhverfi því ekki sé til fjármagn, en hægt sé að nýta tímann til að velta fyrir sér hvað megi betur fara og ákveða hvernig vinnustaðakúltúr fyrirtækið vilji byggja upp til lengri tíma. „Við munum rísa hraðar upp en margir halda,“ sagði Ásberg en benti á að vanda þurfi til verka því heil atvinnugrein sé í áfalli.

„Við stöndum sterk að vígi varðandi náttúruferðamennskuna,“ sagði Erla Ósk Ásgeirsdóttir, forstöðumaður mannauðs og menningar Icelandair hótela, og tók undir það mikla álag sem búið er að vera á starfsfólki á árinu. Brýnt sé að upplýsa starfsfólk reglulega, þó ekkert nýtt sé að frétta, viðhalda lærdómsmenningu og byggja upp liðsheild og traust á ný í framhaldinu.

Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Landnámsseturs, lagði einnig áherslu á að viðhalda góðu sambandi við fyrrum starfsfólk með reglulegu upplýsingaflæði. Hún sagði starfsfólk koma til með að taka virkan þátt í því að þróa hugmyndir fyrir fyrirtækið þegar hægt verður að opna á ný. Landnámssetrið hefur sett matseðla á QR kóða og er að undirbúa stutt myndbönd í kynningarskyni til að gera upplifun viðskiptavina persónulega frá upphafi.

„Hjartað í okkar fyrirtæki er starfsfólkið okkar,“ sagði Knútur Rafn Ármann, eigandi Friðheima, sem vill gera allt til að halda kjarna starfsfólks og tók á það ráð að stækka garðyrkjustöðina og yfirfæra starfsafl þangað tímabundið. Hann telur að Íslendingar verði stærri markhópur til framtíðar og að vel borgandi ferðamenn fari fyrst af stað, og þar skipti gæðin miklu máli. Friðheimar hafa unnið með Hæfnisetri ferðaþjónustunnar í verkefninu Fræðsla í ferðaþjónustu og Knútur benti á að það sé mikilvægt að gæði séu tekin út af þriðja aðila. „Mikilvægt er að stjórnvöld vinni náið með greininni,“ sagði Knútur og vísar þar í þörf á stöðugu upplýsingarflæði sóttvarnayfirvalda til ferðaþjónustufyrirtækja svo hægt sé að forðast kostnað og tap á gæðum. Hann sagði þetta erfiða ár hafi þroskað ferðaþjónustu um allan heim og þær þörfu breytingar sem Gunnar dró fram úr skýrslunni muni leiða af sér betri ferðaþjónustu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi.

Upptökur af streyminu má nálgast hér.

Menntamorgnar ferðaþjónustunnar eru haldnir reglulega af Hæfnisetri ferðaþjónustunnar í samstarfi við SAF til að koma á framfæri því sem er efst á baugi varðandi hæfni og gæði ferðaþjónustunnar á Íslandi.

Hafðu samband