Á undanförnum vikum og mánuðum hefur farið fram vinna við uppfærslu á vefsíðu Hæfniseturs ferðaþjónustunnar. Hæfnisetrið vinnur fyrir fjölbreyttan hóp innan ferðaþjónustunnar og markmiðið með uppfærslunni er að þjóna honum sem best. Meðal annars með því að auka aðgengi að góðu fræðslu- og þjálfunarefni svo það nýtist greininni.
Í verkfærakistu Hæfnisetursins geta notendur nálgast fjölbreytt fræðsluefni og mælikvarða til að meta stöðu og árangur fræðslu.
Verkfæri fyrir fræðslu:
- Fagorðalisti ferðaþjónustunnar
- Fiskabúrið
- Þjálfun í gestrisni
- Rafræn fræðsla – Veistu appið
- Fræðsla í ferðaþjónustu – Handbók og fylgiskjöl fyrir verkefnastjóra
- Þarfagreining fræðslu
Árangursmælikvarðar til að meta árangur fræðslu:
- Starfsánægjukönnun
- Hulduheimsóknir á hótel
- Hulduheimsóknir í þjónustufyrirtæki
- Skráning kvartana
Í verkfærakistunni má jafnframt finna ýmis hagnýt námskeið sem eru í boði fjölbreyttra fræðsluaðila um land allt.
Markaðs- og kynningarmál skipa stóran sess í starfsemi Hæfnisetursins. Undir útgefið efni má finna viðtalsmyndbönd fyrir verkefnið Fræðsla í ferðaþjónustu ásamt ýmsu prentefni. Hæfnisetrið hefur leitt vinnu við stefnumörkun fyrir formlegt nám í ferðaþjónustu og miðlar efninu í skýrslunni Hæfni er grunnur að gæðum. Lesa má sér til um árangurinn af starfi Hæfnisetursins í ársskýrslum á sömu síðu.