„Vinnan að baki skýrslunni er mikilvægt framlag til eflingar ferðaþjónustunni á Íslandi og þar með til eflingar lífskjörum og lífsgæðum okkar Íslendinga,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um skýrsluna Hæfni er grunnur að gæðum sem Hæfnisetur ferðaþjónustunnar gefur út. Markmiðið með skýrslunni er að miðla sýn atvinnulífs og menntakerfis á nám í ferðaþjónustu þannig að sú sýn geti verið skólum og yfirvöldum leiðarljós í mótun mennta- og hæfnistefnu fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein. Í lok skýrslunnar er gerð grein fyrir ýmsum gagnlegum verkfærum sem auðvelda ættu samþættingu sjónarmiða atvinnulífs og menntakerfis. Með aukinni menntun og áherslu á gæðaþjónustu opnast ný tækifæri.
Hæfnisetur ferðaþjónustunnar sem leitt hefur vinnuna með öflugum stuðningi ráðuneyta, aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila, skóla og fyrirtækja, er reiðubúið til að koma að þessari vinnu áfram enda er umgjörð og hugmyndafræði Hæfnisetursins vel til þess fallin að stuðla að frekara samstarfi.
Ferðaþjónustan hefur vaxið ört á undanförnum árum. Ferðamönnum hefur fjölgað og að sama skapi hótelum, veitingastöðum, bílaleigum og fyrirtækjum sem bjóða upp á ýmiss konar afþreyingu. Störfum hefur fjölgað í takt við þarfirnar og kalla nú á meiri fjölbreytni og sérhæfingu. Sviðsmynd í viðauka skýrslunnar veitir yfirsýn yfir umfang og fjölbreyttar þarfir ferðaþjónustunnar.
Á mynd: María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF og formaður stjórnar Hæfnisetursins, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri FA og Hæfnisetursins, og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.