Með samstarfi við fyrirtæki og stofnanir sem starfa á sviði ferðaþjónustu fá nemendur nýjustu þekkinguna úr greininni hverju sinni. Svo dæmi sé tekið hafa viðskiptadeild HR og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, fyrir hönd Hæfniseturs í ferðaþjónustu, skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf. Í því felst meðal annars að deildin hafi aðkomu að árangursmælingum á fræðslu og hvaða þýðingu bætt stjórnendafræðsla hefur á afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Þekking og hæfni í faglegri stjórnun í ferðaþjónustu er verðmæt í íslensku atvinnulífi enda starfar mikill fjöldi fólks við greinina. Í þessu 14 mánaða stjórnunarnámi njóta nemendur sérfræðiþekkingar hérlendra og erlendra sérfræðinga og öðlast þekkingu og færni í að stýra fyrirtækjum í ferðaþjónustu og nýta sóknarfæri.
Meistaranám í stjórnun í ferðaþjónustu undirbýr nemendur fyrir stjórnunarstörf í fyrirtækjum og skipulagsheildum í ferðaþjónustu hér á landi og erlendis. Námið endurspeglar aukið mikilvægi greinarinnar út um allan heim og þar með eftirspurn eftir sérfræðiþekkingu á þessu sviði sem nýtist til að stýra rekstri fyrirtækja með samfélagsábyrgð og sjálfbærni að leiðarljósi.