Arcanum er afþreyingafyrirtæki sem rekur jafnframt kaffihúsið Jöklakaffi en kaffihús sem er staðsett spölkorn frá jökuljaðri Sólheimajökuls. Þar er boðið upp á léttar veitingar svo sem súpu og brauð ásamt kaffi og kakó, heimabökuðum kökum og brauðmeti.

Stofnendur fyrirtækisins þau Andrína Guðrún Erlingsdóttir og Benedikt Bragason hafa mikla reynslu af ferðalögum á fjöllum.  Undanfarin 20 ár hafa þau rekið ferðaþjónustu við Mýrdalsjökul og farið með ferðalanga upp á jökulinn og inn á hálendið á vélsleðum og jeppum. Reksturinn hefur gengið vel og nýlega ákváðu þau að stofna nýtt fyrirtæki um reksturinn. Nú hefur fyrirtækið bætt við jöklagöngu og ísklifri en þær ferðir fara fram á Sólheimajökli, skriðjökli sem gengur suður úr Mýrdalsjökli.

Hjá Arcanum hefur mikil þekking safnast saman í gegnum árin og höfum við verið að búa til fræðsluefni sem við notum í nýliðafræðslu sem byggir á fyrirlestrum og síðan verklegri þjálfun segir Tómas Magnússon einn af eigendum Arcanum.

Við skipuleggjum fræðslu eftir þörfum eins og t.d. alltaf þegar nýr starfsmaður kemur til starfa þá fer hann í gegnum nýliðaþjálfun sem felst i fræðslu um náttúruna, öryggi, ferðirnar, þjónustuna og viðhald og umgengni tækja og véla. Farið er vandlega yfir verklagsreglur og verkferla. Við byggjum þjálfunina okkar út frá öryggisáætlununum.

Mikil keyrsla og vöxtur hefur verið í fyrirtækinu undanfarin ár. Við hefðum viljað hafa meiri tíma til að sinna fræðslumálum innan fyrirtækisins. Það vantar formlega menntun í ferðaþjónustu segir Tómas. Ungt fólk þarf að sjá þennan starfsvettvang sem val sem framtíðarstarf. Slíkt nám þarf að vera sniðið að þörfum þeirra sem eru starfandi í ferðaþjónustufyrirtækjum eins og bjóða t.d. upp á fjarnám með vinnu.