Hótel sem er staðsett við stöðuvatn og umkringt fjöllum býður upp á pakkaferðir fyrir ýmsa útivist á svæðinu á heimasíðu sinni, eins og fjallahjólaferðir, bátaferðir, gönguferðir undir leiðsögn og flúðasiglingar. Vefsíðan upplýsir einnig um háa hreinlætis staðla til að tryggja gestum sínum örugga upplifun í fríinu.
Miðaldra hjón sem hafa ákveðið að bóka sig á hótelið vilja skipuleggja allt fyrir fram og hafa áhuga á að heyra meira um mismunandi upplifanir eftir að hafa skoðað möguleikana á heimasíðu hótelsins. Hreinlæti er þeim líka mjög mikilvægt og þau hafa samband við hótelið. Hótelstjórinn svarar en virðist vera mjög upptekinn þá stundina, vegna starfsmannaeklu, og reynir að hafa símtalið eins stutt og hægt er. Hann bendir á að allar nauðsynlegar upplýsingar sé að finna á heimasíðunni, allar pakkaferðirnar séu frábærar, og þau geti líka pantað ferðirnar eftir komuna ef þau séu ekki viss um hvað á að velja. Hann tjáir þeim að hreinlætisráðstafanir séu í samræmi við lög.
Þó hjónin hafi ákveðið að bóka sig á hótelinu eru þau vonsvikin með upplýsingarnar því þau hefðu viljað bóka allt fyrir fram. Þau segja við hótelstjórann að þau þurfi tíma til að hugsa málið og kveðja.