Atvinnurekendum er skylt að tryggja öruggt vinnuumhverfi fyrir starfsfólkið sitt. Mikilvægt er að stjórnendur leggi áherslu á forvarnir og skjót viðbrögð við vandamálum sem upp koma.
Til að fyrirbyggja einelti, áreitni og ofbeldi þurfa atvinnurekendur að greina áhættur í vinnuumhverfinu sem geta ógnað öryggi starfsfólks. Atvinnurekendum er skylt að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað og framkvæma áhættumat (Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, 1980, nr. 46). Áhættumat felur í sér að koma auga á hættur í vinnuumhverfinu og er það gert út frá fimm þáttum vinnuverndar, en félagslegt vinnuumhverfi er einn þessara þátta. Á vef Vinnueftirlitsins má finna upplýsingar og hjálpargögn við gerð áhættumats. Þar er einnig að finna upplýsingar um viðurkennda þjónustuaðila sem geta aðstoðað við gerð áhættumats.
Liður í forvarnaáætlun vinnustaða er einnig að hafa aðgengilega yfirlýsingu um samskiptareglur vinnustaðarins sem tilgreinir að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi verði ekki liðið á vinnustaðnum.
Jafnframt geta vinnustaðir gert samskiptasáttmála þar sem gildi og viðmið í samskiptum á vinnustaðnum eru skilgreind. Mælt er með að starfsfólkið taki virkan þátt í myndum og mótun samskiptasáttmálans.
Auk þess má fyrirbyggja óviðeigandi hegðun með eftirfarandi aðgerðum:
- Hafa skýrar starfslýsingar til að forðast ágreining um verkefni eða hlutverk
- Upplýsa nýtt starfsfólk um störf, verkefni og samskiptagildi
- Skapa vettvang þar sem starfsfólk getur rætt um líðan á vinnustað
- Gefa starfsfólki tækifæri á að koma fram með hugmyndir sínar um hvað einkennir góða og uppbyggilega vinnustaðamenningu
- Fræðsla og þjálfun starfsfólks um mikilvægi góðra samskipta
- Skipuleggja skemmtilega samveru starfsfólks
Dæmi
- Dæmi um yfirlýsingu um að einelti, áreitni og ofbeldi verði ekki liðin
- Dæmi um samskiptasáttmála frá Samtökum atvinnulífsins
- Dæmi um EKKO forvarnir og viðbrögð fyrir litla vinnustaði