Þjónustuferlið frá upphafi til enda

Fjölbreytni veitingastaða er jafnmikil og þeir eru margir. Áherslurnar eru margvíslegar og þjónustan getur verið mismunandi eftir stöðum. Hafðu í huga að grunnurinn er alltaf sá sami; að veita sem besta þjónustu

Flestir veitingastaðir fylgja ákveðnu ferli frá því tekið er á móti gestum þar til þeir yfirgefa veitingastaðinn. Hér er dæmi um algengt þjónustuferli í 9 skrefum.

1.

Þegar gestir koma inn á veitingastað er þeim heilsað og, þar sem við á, vísað til borðs. Ef bið er eftir lausu borði skaltu láta gestinn vita hversu langur biðtíminn sé.

2.

Eftir að gestir hafa fengið sér sæti skaltu fylla á vatnsglös gestanna og setja vatnskönnu á borðið. Síðan færir þú gestunum mat- og drykkjaseðil. Ef sértilboð eða réttir dagsins eru í boði, þarf að kynna það sérstaklega.

Á veitingastöðum þar sem gestir sækja sér vatn sjálfir er mikilvægt að fylla reglulega á vatnskönnur og glös.

3.

Gefðu gestum tækifæri á að panta sér drykki. Ekki má líða langur tími þar til að drykkirnir eru bornir fram.

4.

Þegar gestir hafa fengið drykkina sína, skaltu spyrja hvort þeir séu tilbúnir til þess að panta mat.

  • Gott er að miða við að taka pöntun innan tveggja mínútna frá því að gestir leggja frá sér matseðil.
  • Oft eru gestir með spurningar um matseðilinn sem þú verður að geta svarað, t.d. um matreiðslu, meðlæti og vín. Að þekkja mat-og drykkjarseðilinn vel er því lykilatriði. 
  • Gestir biðja jafnframt oft um meðmæli og því þarft þú ávallt að geta mælt með nokkrum réttum í samræmi við óskir gestanna.
  • Ef gestir eru á sérfæði eða með mataróþol þarft þú að koma skýrum skilaboðum áfram til eldhússins.

5.

Þegar þú berð matinn fram þarft þú að tryggja að allir gestir fái matinn sinn á sama tíma og að enginn þurfi að bíða eftir pöntuninni sinni. 

  • Ef að diskar gestanna eru heitir þegar þú berð fram matinn skaltu láta gestina vita af því.
  • Fylgstu jafnframt með að gestir sitji ekki með tóm glös og bjóddu þeim að panta fleiri drykki. 

6.

Skömmu eftir að gestir byrja að borða er gott að koma aftur að borðinu og spyrja hvort að allt sé í góðu eða hvernig maturinn bragðist. 

7.

Þegar allir diskarnir eru tómir eða allir gestir virðast hættir að borða, þá skaltu spyrja hvort þú megir taka diskana. Einnig er gott að spyrja hvort að gestir vilji panta eftirrétt, ef þeir hafa ekki gert það nú þegar.

8.

Áður en gestir yfirgefa veitingastaðinn þarf að taka við greiðslu. Annað hvort er þeim færður reikningur eða þeim vísað á afgreiðsluborð. Oft óska gestir eftir því að skipta reikningnum og í þeim tilvikum er mikilvægt að þú takir vel í það og vitir hvernig það er gert.

9.

Eftir að gestirnir eru farnir þarf að hreinsa borðin um leið og undirbúa borðin fyrir næstu gesti.


Áhugavert

Vín 101 fyrir þjóna (frítt netnámskeið)

Hafðu samband