Samskipti við gesti

Þú þarft að vera vakandi fyrir þörfum gestanna og kunna að lesa í aðstæður þeirra. Eru gestirnir að flýta sér eða eru þeir að njóta? Eru þeir á rómantísku stefnumóti, viðskiptafundi eða er um að ræða barnafjölskyldu? Eru þau ein á ferð eða í hóp? Slíkt skiptir máli með tilliti til þess hvort að gestirnir vilji frekar fá snögga og fagmannlega þjónustu eða hvort að þeir vilji spjalla við þjóninn á aðeins persónulegri nótum. 

Nokkur góð ráð:

  • Brostu og vertu kurteis því það er grundvallaratriði í því að láta gestum líða vel og velkomnum. 
  • Horfðu í augun á gestinum þegar þú talar við hann.
  • Hugaðu að líkamsstöðu þinni. Krosslegðu ekki hendur og stattu bein/-n í baki.
  • Notaðu röddina á áhrifaríkan hátt þannig að gesturinn skynji að þú hafir áhuga.
  • Hlustaðu vel á það sem gesturinn er að segja og reyndu að láta ekkert trufla þig.
  • Ef gesturinn er reiður eða í uppnámi, haltu ró þinni. Reyndu jafnframt eftir bestu getu að leysa úr vandanum (sjá: Kvartanir).
  • Mikilvægt er að þú sem þjónn sért alltaf til taks þegar gestir vilja ná sambandi við þjón. Til að mynda máttu ekki gleyma þér í spjalli við samstarfsfólk í veitingasalnum heldur þarf athyglin að fylgja gestunum. 
  • Ef þú þarft að fara í símann eða borða, farðu afsíðis þar sem gestir sjá ekki til.
  • Gott er að undirbúa sig vel undir helstu spurningar sem gestir kunna að spyrja, sérstaklega um matseðilinn. Ef upp kemur spurning sem þú veist ekki svarið við, þá er í góðu lagi að segja við gestinn að þú sért óviss, ætlir að spyrjast fyrir um málið og komir til baka eftir skamma stund.

Áhugavert

Líkamstjáning: Grunnatriði (frítt netnámskeið)
Upplifun gesta: Grunnatriði (frítt netnámskeið)

Hafðu samband