Oft skipta fyrstu sekúndurnar sköpum þegar kemur að þjónustu. Þegar þú tekur á móti nýjum viðskiptavini er því mikilvægt að heilsa honum á vingjarnlegan hátt. Ef þú ert upptekin/-n og getur ekki sinnt honum strax, láttu hann vita að þú vitir af honum (t.d. með því að mynda augnsamband) og að þú munir aðstoða hann innan skamms. 

Í samskiptum við viðskiptavini skipta eftirfarandi atriði miklu máli:

  • Brostu og horfðu í augun á viðskiptavininum.
  • Haltu viðeigandi fjarlægð frá viðskiptavinum.
  • Hugaðu að líkamsstöðu þinni. Krosslegðu ekki hendur og stattu bein/-n í baki.
  • Notaðu röddina á áhrifaríkan hátt þannig að viðskiptavinurinn skynji að þú hafir áhuga.
  • Best er að forðast að gefa táknræn merki (t.d. með því að snúa þumalfingri upp í loft eða mynda hring með þumalfingri og vísifingri) því það hefur misjafna þýðingu eftir menningarheimum og getur verið móðgandi eða særandi.
  • Hlustaðu vel á það sem viðskiptavinurinn er að segja og reyndu að láta ekkert trufla þig.
  • Ef að viðskiptavinur er reiður eða í uppnámi, haltu ró þinni. Reyndu jafnframt eftir bestu getu að leysa úr vandanum (sjá: Kvartanir).
  • Sýndu frumkvæði með því að bjóða viðskiptavininum eitthvað sem hann á ekki nauðsynlega von á en kann að meta. 
  • Oft á tíðum eru viðskiptavinir með ákveðnar sérþarfir eða óskir. Best er að koma til móts við slíkt þar sem það ýtir undir jákvæða upplifun þeirra, en ef ekki er hægt að uppfylla tiltekna ósk þá þarft þú að útskýra hvers vegna það er ekki hægt og bjóða upp á eitthvað sem gæti komið í staðinn.
  • Vertu kurteis og kveddu viðskiptavini þína þegar þú hefur aðstoðað þá, t.d. með því að segja „Takk fyrir komuna“, „Verði ykkur að góðu“ eða „Góða ferð“

Mikilvægt er þó að muna að „góð“ samskipti eru einstaklingsbundin. Sumum gestum getur t.d. þótt óþægilegt að halda augnsambandi á meðan öðrum finnst það mikilvægt. Því er nauðsynlegt að lesa viðskiptavininn, reyna að skilja hugarástand og tilfinningar hans og nálgast hann út frá hans eigin forsendum.

Hafðu einnig í huga að erlendur ferðamaður er alltaf gestur í ókunnu landi og getur þarf af leiðandi verið óöruggur og stressaður. Auk þess getur hann hafa lent í erfiðum aðstæðum, t.d. slæmu veðri eða bilun á bílaleigubíl.

Áhugavert

Líkamstjáning: Grunnatriði (frítt netnámskeið)
Upplifun gesta: Grunnatriði (frítt netnámskeið)

Hafðu samband