Hæfnisetur ferðaþjónustunnar kynnti þann 20. maí niðurstöður samtals atvinnulífs og menntakerfis um framtíðarskipan náms í ferðaþjónustu. Í samtalinu tóku þátt hagaðilar í ferðaþjónustu, stjórnendur og starfsfólk fyrirtækja, fulltrúar aðila atvinnulífsins, auk stjórnenda og starfsfólks skóla og fræðsluaðila. Skýrslan, Hæfni er grunnur að gæðum, sem kynnt var í dag er innlegg atvinnulífsins í mótun mennta- og hæfnistefnu fyrir ferðaþjónustu. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, og mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir ávörpuðu fundinn.
Meginniðurstaða samtalsins er sú að allir aðilar sem komu að vinnunni, skólar, fræðsluaðilar, stéttarfélög og atvinnurekendur, eru sammála um að:
- Atvinnulíf og menntakerfi vilja vinna saman
- Þörf er á breytingum á námsframboði
- Raunfærnimat verði útbreidd og viðurkennd aðferð til að meta hæfni
- Vottun á námi/hæfni verði á öllum þrepum og slík vottun hafi gildi á vinnumarkaði og í frekara námi
Hæfnisetrið þakkar öllum þeim sem tóku þátt í samtalinu og vinnur úr þeim athugasemdum og hugmyndum sem bárust.