Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra gerðu samspil atvinnulífs og menntamála að umfjöllunarefni á viðburði sem fram fór í dag á Grand hóteli Reykjavík. Það voru Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og SAF sem boðuðu til viðburðarins til að kynna fagorðalista ferðaþjónustunnar sem miðar að aukinni fræðslu til erlends starfsfólks um íslenskt mál.
Í ræðu sinni sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, gott starfsfólk vera lykilatriði fyrir rekstur ferðaþjónustufyrirtækja og góða upplifun ferðamanna.
„Orðalykillinn er mikilvægt tæki til að efla samskipti starfsfólks og því samhliða að auka ánægju þess og hæfni – og þar með gæði íslenskrar ferðaþjónustu.“
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi með það að markmiði að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Í ræðu sinni sagðist ráðherra fagna því frumkvæði sem ferðaþjónustan sýni með því að bjóða íslenskufræðslu með þessum hætti.
„Við viljum snúa vörn í sókn fyrir íslenskuna og þetta er lofsvert framtak sem ég tel að muni bæta þjónustu og stuðla að betri samskiptum.“
Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, afhenti Stefáni Karli Snorrasyni, starfsþróunar- og gæðastjóra hjá Íslandshótelum, fagorðalistann á veggspjaldi en hann er jafnframt tiltækur í ítarlegri útgáfum á vefnum.
Mynd 1: Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamálaráðherra og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF
Mynd 2: Stefán Karl Snorrason, starfsþróunar- og gæðastjóri hjá Íslandshótelum og Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar