Hæfnisetrið kynnir Ferðapúlsinn

Hæfnisetri ferðaþjónustunnar er það mikið gleðiefni að tilkynna að nú hefur loks litið dagsins ljós stafrænt stöðumat fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu undir nafninu Ferðapúlsinn. Hæfnisetrið hefur unnið að þessari lausn undanfarið ár í samvinnu við Ferðamálastofu, Íslenska ferðaklasann, Markaðsstofur landshlutanna og SAF. Tildrög verkefnisins voru samtöl hagaðila innan ferðaþjónustunnar sem sáu þörf hjá greininni á annars vegar stöðutöku varðandi stafræna tækni og hins vegar vegvísum að framtíðarlausnum. Það kom berlega í ljós á Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar 14.janúar að það er orðið afar aðkallandi fyrir íslenska ferðaþjónustu að aðlaga sig að nýjum veruleika,  hoppa á gervigreindarlestina og notfæra sér fleiri stafrænar lausnir til hagræðingar í rekstri. 

Ferðapúlsinn er aðlagaður að ferðaþjónustunni til að mæla ýmsa þætti í starfseminni sem snúa að stafrænni hæfni eins og notkun gervigreindar, markvissra gagnagreininga, stafrænnar markaðssetningar og fleira.  Að taka stöðuna á stafrænni hæfni gerir fyrirtækjum mögulegt að finna nýjar leiðir til að hagræða í rekstri, bæta samkeppnisstöðu sína, auka hæfni starfsfólks og þar með arðsemi. Ferðapúlsinn gerir fyrirtækjum og atvinnugreininni í heild kleift að greina stafræna hæfni milli landsvæða sem og á landsvísu og þar með staðsetja sig í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Slík greining er lykilatriði fyrir tækifæri til greina fræðslu-og þjálfunarþarfir og til að tryggja alþjóðlega samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu.  

Við fögnum því að þetta nýja verkfæri sé búið að líta dagsins ljós og hlökkum til að halda áfram í samvinnu við greinina með þróun þess og kynningu  á næstu misserum. 

Ferðapúlsinn verður vígður formlega af nýskipuðum atvinnuvegaráðherra Hönnu Katrínu Friðriksson við upphaf Mannamóta í Kórnum á morgun kl. 13:15. 

Það væri gaman að hitta ykkur á básnum okkar við þetta tækifæri eða hvenær sem er innan dagsins og sýna ykkur Ferðapúlsinn. 

Hafðu samband