1. Skilgreiningar og birtingarmyndir

Einelti, áreitni og ofbeldi eru áhættuþættir sem geta haft veruleg áhrif á vellíðan starfsfólks. Því er mikilvægt að leggja áherslur á forvarnir og vera með skilvirk viðbrögð við kvörtunum og ábendingum um EKKO (einelti – kynferðisleg áreitni – kynbundin áreitni – ofbeldi).

Einelti

Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Dæmi um birtingarmyndir:

  • Ítrekuð ómálefnaleg gagnrýni
  • Niðurlæging
  • Baktal eða sögusagnir
  • Meðvituð útilokun
  • Þöggun
  • Upplýsingum vísvitandi haldið frá aðila
  • Skemmdarverk
  • Verkefni óvænt tekin frá starfsmanni
  • Skyndileg, óþægileg tilfærsla í starfi
  • Óraunhæft eftirlit
  • Skortur á umburðarlyndi gagnvart sérstöðu einstaklinga

Kynferðisleg áreitni

Með kynferðislegri áreitni er átt við hvers kyns kynferðislega hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og / eða líkamleg.

Dæmi um birtingarmyndir:

  • Dónalegir brandarar
  • Kynferðislegar athugasemdir
  • Augnagotur eða gláp
  • Óviðeigandi snerting eða myndataka
  • Óviðeigandi athugasemdir um kynferðisleg málefni og útlit
  • Óvelkomin beiðni um kynferðislegt samband
  • Óvelkomin samskipti á samfélagsmiðlum

Kynbundin áreitni

Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Dæmi um birtingarmyndir:

  • Óviðeigandi talsmáti eða framkoma sem tengist kyni og kynhneigð fólks
  • Niðurlæging til dæmis vegna aldurs, trúarbragða eða þjóðernis

Ofbeldi

Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður. Einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis.

Dæmi um birtingarmyndir:

  • Líkamlegt ofbeldi: árásir, slagsmál, spörk, bit o.fl.
  • Andlegt ofbeldi: hótanir, áreitni, valdníðsla, skipulögð niðurlæging o.fl.

Heimild: Vinnueftirlitið

Hafðu samband