Yfirskrift fundar dagsins var „Sögur sem selja“
Þar var kastljósinu beint að því hvernig upplifunarhönnun og sagnalist geta umbreytt þjónustu í einstaka upplifun sem snertir gesti, festist í minni og styrkir ásýnd fyrirtækja, áfangastaða og sýninga. Fundurinn var ætlaður öllum sem vilja efla vörumerki sín, markaðslegan slagkraft og samkeppnishæfni í ferðaþjónustu – með því að nýta kraft frásagnar og hönnunar til að skapa dýpri tengingu við gesti.
Nýjar hugmyndir og innblástur
Margar nýjar hugmyndir kviknuðu í umræðum fundarins, sérstaklega varðandi möguleika margmiðlunar til að miðla sögum á áhrifaríkan og skapandi hátt. Þátttakendur fengu innsýn í hvernig tæknin getur stutt við upplifun gesta og skapað sterkari tengingu við staði og sögur þeirra. Einnig fengum við að heyra um fleiri margmiðlunarverkefni sem eru í þróun og vekja vonir um nýsköpun í frásögn og upplifunum innan ferðaþjónustunnar.
Upptaka aðgengileg – með smávægilegri tæknitruflun
Upptaka af fundinum er nú aðgengileg hér. – þó tæknin hafi aðeins strítt okkur í byrjun og vanti upphaf fyrsta erindisins, þá er efnið sem fylgir ómissandi fyrir alla sem vilja nýta kraft sagnalistar og upplifunarhönnunar til að efla þjónustu og tengingu við gesti.
Viðburðurinn sem er í boði Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, Samtaka ferðaþjónustunnar og Markaðsstofa landshlutanna var haldinn í beinu streymi á Facebook og þegar mest var voru um 80 manns að horfa.

