Það var frábær þátttaka á Menntamorgni ferðaþjónustunnar sem haldinn var í morgun í beinu streymi enda afar áhugavert málefni til umræðu sem brennur á mörgum í ferðaþjónustunni: Hverjir það eru sem heimsækja eða vilja heimsækja Ísland og hvernig sé eiginlega best að ná í þá.
Daði Guðjónsson, forstöðumaður markaðssvið Íslandsstofu sagði frá ýmsum markaðsaðgerðum þeirra sem og nýlegri markaðskönnun um hugrenningatengsl gagnvart Íslandi. Hann ræddi einnig um þá tvo megin markhópa sem Íslandsstofa leggur áherslu á, Lífsglaða heimsborgarann og Sjálfstæða landkönnuðinn en hægt er að kynna sér nánar markhópagreininguna hér.
Andreas Örn Aðalsteinsson ræddi síðan um gagnadrifna markaðssetningu og lagði áherslu á að ef fyrirtæki ætli útí stafræna markaðssetningu sé afar mikilvægt að skilgreina fyrst markmiðin og velja sér mælikvarða í samræmi við þau. Annars geti þau alveg eins hent peningum út um gluggann!
Að lokum fengum við að heyra frá Birgi Má Daníelssyni markaðsstjóra hjá Hvammsvík.
Birgir brýndi fyrir fyrirtækjum að skilgreina vel persónuleika vörumerkisins, ákveða hvaða sögu þau vilji segja á samfélagsmiðlum og með hvaða raddblæ. Hann lagði áherslu á trúverðugleika og samræmi í framsetningu og varaði við því láta gervigreind stýra framsetningu og tóni við efnissköpun. Hann hvatti einnig fyrirtækin til að gera tilraunir og hafa gaman á samfélagsmiðlunum og varast að “hoppa miðaldra á allt sem var vinsælt í síðustu viku.”