Í framhaldi af Menntamorgni fyrr á árinu sem bar heitið “Ráðningar og Z kynslóðin” var Erlu Ósk Ásgeirsdóttur, framkvæmdastjóra sjálfbærni og menningar hjá Símanum, boðið í örþáttinn „Í stuttu máli“ þar sem hún kom inn á það helsta varðandi væntingar Z kynslóðar (fólk sem fætt er 1995-2012) til stjórnenda. Þar kom meðal annars fram að þessi kynslóð vill inngildandi menningu á vinnustað og tækifæri til að skapa. Þau eru árangursdrifin og frumkvöðlar í eðli sínu. Nú eru fjórar kynslóðir á vinnustað og því mikilvægt fyrir stjórnendur að skilja hvernig þau geta leitt fjölbreytt og fjölkynslóða teymi.
Góð móttaka og skýrar leiðbeiningar mikilvægar
Erla Ósk kom einnig inn á áskoranir, þar sem margir frá þessari kynslóð hafa ekki mikla reynslu af vinnumarkaðnum áður en þau hefja störf og því ekki endilega skýra mynd af vinnustöðum og eðli starfa. Þá er það hlutverk stjórnenda að hafa allt upp á borði og útskýra vel fyrir nýliðanum eðli starfsins, vinnuumhverfisins, vinnutíma, væntingar, og einnig jákvæðar og neikvæðar hliðar starfsins.
Góð móttaka, stuðningur og leiðbeiningar skipta höfuðmáli í upphafi starfs, fyrsti dagur í starfi þarf að vera góð upplifun og stjórnendur þurfa að vera búnir að skipuleggja móttökuáætlun, áframhaldandi stuðning og endurgjöf fyrstu vikurnar og helst fyrstu þrjá mánuðina í starfi. Þá sé mikilvægt fyrir allar kynslóðir að hafa tækifæri til starfsþróunar og fá að vaxa í starfi.
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.