Það urðu breytingar á lögum í úrgangsmálum árið 2023 þar sem sama flokkunarkerfi var látið gilda um allt land. Samhliða breytingunni var byrjað að innheimta gjöld fyrir ranga meðhöndlun úrgangs, þar sem það er dýrara fyrir þjónustuaðila að koma óendurvinnanlegum úrgang í farveg. Þessi breyting þýðir að það getur orðið dýrkeypt fyrir fyrirtæki að flokka vitlaust. Að flokka rétt er því jákvætt fyrir reksturinn, það mætir væntingum viðskiptavina og þau fyrirtæki sem vilja skara fram úr huga að samfélagslegri ábyrgð.
Samtal SVEIT, Hæfnisetursins og Íslenska Gámafélagsins
Fyrr í vor hófst samtal Hæfnisetursins við SVEIT, Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði, þar sem framkvæmdastjóri vildi hjálpa fyrirtækjum í veitingageiranum að bæta flokkunarárangur sinn. Hann hafði þegar hafið samtal við Íslenska Gámafélagið og leiddi Hæfnisetrið inn í umræðuna. Í framhaldinu heimsótti Hæfnisetrið höfuðstöðvar Íslenska Gámafélagsins til að læra að læra meira um flokkun.
Stjórnendur stuðla að réttri flokkun á vinnustað
Stjórnendur og vaktstjórar gegna mikilvægu hlutverki í að hvetja starfsfólk til að flokka með því að koma fyrir viðeigandi flokkunarílátum á starfsstöðum og leiðbeiningum ásamt því að upplýsa nýliða þannig að starfsfólk sé ekki í vafa um hvernig eigi að flokka rétt. Flest fyrirtæki eru byrjuð í sinni flokkunarvegferð, en mörg fyrirtæki geta bætt sinn árangur og þar með lækkað losunargjöld þjónustuaðila.
Smelltu á myndina hér að neðan til að nálgast einfaldar leiðir til að bæta flokkunarárangur.