Íslenskukennslu appið Bara tala innleiðir fagorðalista ferðaþjónustunnar

Samtal hófst milli framkvæmdastjóra Bara tala og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar eftir að fyrirtækið hlaut viðurkenninguna sem Menntasproti ársins. Íslenskukennslu appið Bara tala byggir á gervigreind og máltækni og veitir góðan stuðning við starfsfólk í ferðaþjónustu sem eru að taka fyrstu skrefin í að læra íslensku.

Sammælst var um mikilvægi þess að stuðla að aukinni notkun íslensku í ferðaþjónustu. Bara tala hefur nú innleitt Fagorðalista ferðaþjónustunnar sem þróaðir voru af Hæfnisetrinu í samvinnu við starfsfólk í ferðaþjónustu og hagsmunaaðila ferðaþjónustunnar. Fagorðalistarnir og veggspjöldin verða áfram aðgengileg öllum hér á hæfni.is.

Starfstengt íslenskunám fyrir ferðaþjónustufyrirtæki

Nýlega innleiddu Berjaya Hotels og Center Hotels lausnina. Hótelin, í samstarfi við Bara tala, þróa sérsniðið starfstengt íslenskunám og verður efnið síðan aðgengilegt fyrir önnur fyrirtæki á Íslandi sem fjárfesta í lausninni. Þetta er mikilvægt skref til að erlent starfsfólk í ferðaþjónustu geta tileinkað sér orðaforða sem er viðeigandi í þeirra starfi.

Fv. Ólína Laxdal (Hæfnisetur ferðaþjónustunnar), Eir Arnbjarnardóttir (Center Hotels), Jón Gunnar Þórðarson (Bara tala) og Bryndís Skarphéðinsdóttir (Hæfnisetur ferðaþjónustunnar). Myndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson.

Um Bara tala

Í forritinu er áhersla er lögð á talmál og notendum gefst tækifæri til að læra og æfa sig í framsögn á íslenskri tungu. Starfsfólk talar við appið og það gefur endurgjöf, áhersla er á samtöl og tungumálið kennt í gegnum leik með myndum og hljóðum. Bara tala getur verið öflug viðbót við íslenskunámskeið og tungumálastuðning á vinnustað.

Á myndinni efst í frétt skrifa Eir Arnbjarnardóttir mannauðsstjóri hjá Center Hotels og Jón Gunnar Þórðarson framkvæmdastjóri Bara tala undir samstarfssamning. Sjá nánari fréttaumfjöllun á mbl.is.

Hafðu samband