Bláa lónið hlýtur hvatningarverðlaun á degi ábyrgrar ferðaþjónustu
Þann 17. janúar var dagur ábyrgrar ferðaþjónustu með áherslu á sjálfbærni. Eliza Reid forsetafrú afhenti hvatningarverðlaun ársins í Grósku en Bláa lónið hlaut heiðurinn fyrir áherslu sína á sjálfbærni í allri sinni starfsemi.
Í lok viðburðarins hvatti Ásta Kristín hjá Íslenska ferðaklasanum ferðaþjónustuna til að taka skýra stefnu varðandi sjálfbærni og fara í átt nærandi ferðaþjónustu (regenerative tourism). Til þess þarf hugrekki með viljann að verki, ásamt því hugarfari að það að valda ekki skaða í okkar umhverfi sé það minnsta sem við getum gert – ferðaþjónustan getur valið að taka sjálfbærni skrefinu lengra og orðið leiðandi á því sviði.
Viðhorfskönnun meðal ferðaþjónustufyrirtækja sýnir styrkingu í greininni
Nýársmálstofa ferðaþjónustunnar var haldin við opnun ferðaþjónustuvikunnar þar sem Lilja Alfreðsdóttir ráðherra ferðamála talaði um verðmætasköpun ferðaþjónustunnar fyrir efnahag Íslands og samfélagið allt. Kynnt var niðurstaða viðhorfskönnunar meðal ferðaþjónustuaðila sem sýnir styrkingu í greininni en samkvæmt könnuninni telja 62% fyrirtækja þau vera sterkari samanborið við árið 2022. Í framhaldi fjallaði Akademias um mikilvægi hæfni og þjálfunar í ferðaþjónustu til að tryggja gæði greinarinnar, og kynnti leiðtogaþjálfun fyrir stjórnendur í ferðaþjónustu.
Bergur Ebbi lokaði fundinum um framtíð ferðaþjónustunnar með eftirfarandi hugvekju:
„Við eigum að eyða næstu árum í að hugsa – Hvað finnst okkur? Hvað viljum við gera? Við viljum reyna að vera með fyrirbyggjandi nálgun, vera skapandi og leiðandi, ekki bara að bregðast við.“
Rúsínan í pylsuendanum – Mannamót
Ferðaþjónustuvikan náði hápunkti á Mannamótum en þar kynntu fyrirtæki af landsbyggðinni starfssemi sína. Það sem gerir Ísland að einstökum áfangastað eru þau fjölmörgu fyrirtæki á landsbyggðinni sem bjóða upp á persónulega þjónustu og íslenskar vörur. Hæfnisetrið var á staðnum til að kynna verkfæri og ráðgjöf sem standa fyrirtækjum til boða. Meirihluti fyrirtækjanna á landsbyggðinni eru lítil og meðalstór og því starfsfólk oft með marga hatta – dugleg í að redda sér sjálf eins og Íslendingum er einum tamið en þá er gott að geta leitað í stuðningsefni og ráðgjöf. Ein sem við ræddum við orðaði þetta vel: „Það þurfa ekki allir að finna upp hjólið“ og vitnaði þar í að fyrirtæki geta sparað sér tíma og bætt gæði verkferla með því að nýta sér verkfærin sem standa þeim til boða hér á hæfni.is.
Dagarnir 16.-18. janúar 2024 voru helgaðir ferðaþjónustu. Þar var lögð áhersla á að auka vitund um mikilvægi ferðaþjónustu og efla samstarf og fagmennsku í greininni.