Fyrirbyggjum áreitni og ofbeldi innan ferðaþjónustunnar

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar leggur áherslu á fræðslu og forvarnir varðandi áreitni og ofbeldi í atvinnulífinu og hefur því birt fræðsluefni fyrir stjórnendur og starfsfólk um forvarnir og viðbrögð á hæfni.is.

Því miður sýna rannsóknir að starfsfólk í ferðaþjónustu er í hættu á að verða fyrir kynferðisleg áreitni og ofbeldi á vinnustað. Samkvæmt rannsókn á kynferðislegri áreitni gagnvart starfsfólki í þjónustustörfum hafa 41% þeirra sem störfuðu í þjónustu á síðustu 10 árum orðið fyrir áreitni, sér í lagi konur. Sömuleiðis staðfesta niðurstöður rannsóknarinnar Áfallasaga kvenna að konur á opinberum vettvangi og í ferðaþjónustu séu í mestri hættu að verða fyrir kynferðislegri áreitni og ofbeldi í vinnunni.  

Mikilvægt er að atvinnulífið geri sér grein fyrir að áreitni og ofbeldi á vinnustað geta haft veruleg áhrif á heilsu og vellíðan starfsfólks. Atvinnurekendum ber lagaleg skylda til að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði og fyrirbyggja að starfsfólk þeirra verði fyrir ofbeldi eða áreitni.

Á hæfni.is er hægt að finna gagnlegt efni sem tengist forvörnum og viðbrögðum við áreitni og ofbeldi á vinnustað. Fjallað er um birtingamyndir áreitni og ofbeldis og greint er frá því hvernig hægt er að fyrirbyggja óviðeigandi hegðun og samskipti. Jafnframt er þar að finna gagnlegt stuðningsefni, m.a. frá Vinnueftirlitinu, Virk og SA.

Kynntu þér stuðningsefnið hér. Þar má t.d. finna:

  • samskiptasáttmála fyrir vinnustaði
  • bæklinga og blöðunga fyrir stjórnendur og starfsfólk
  • gátlista fyrir stjórnendur við meðferð EKKO mála*

Við hvetjum stjórnendur og starfsfólk til að kynna sér efnið og leggja áherslu á forvarnir til að stuðla að öruggu og góðu vinnuumhverfi innan ferðaþjónustunnar.

* EKKO=einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi

Hafðu samband