Samstarf um framkvæmd námslínu í ferðaþjónustu

Fyrsti fundur samstarfsaðila um nám í ferðaþjónustu var haldinn á Akureyri í september s.l. Meginefni fundarins og samstarfsins lítur að framkvæmd á námsbraut í ferðaþjónustu sem er í vottunarferli hjá Menntamálastofnun.

Námslínan er ætluð fólki sem starfar innan ferðaþjónustu eða sér þar mögulega sinn starfsvettvang til framtíðar. Miðað er við að námið verði einnig lagað að fólki með annað móðurmál en íslensku. Gert er ráð fyrir að námið fari af stað haustið 2023 og að það fari að mestu fram stafrænt svo nemar verði sem allra minnst bundnir staðsetningu fræðslustofnana á landinu. Jafnframt er gert ráð fyrir að komið verði á mati inn í námslínuna, m.t.t. fólks sem starfað hefur innan ferðaþjónustu.

Markmiðið með samstarfinu er m.a. að námið fari fram í samvinnu framhaldsfræðslu, framhaldsskóla með beina tengingu við frekara nám á háskólastigi. SÍMEY leiðir samstarfið í samvinnu við Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA), Háskólann á Hólum, Menntaskólann á Tröllaskaga (MTR), Samtök Ferðaþjónustunnar (SAF), Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar.

Námið hefst á kjarna (40 einingar) og þar á eftir er val milli sérhæfinga (50 einingar). Til að byrja með verður hægt að velja þrjár sérhæfingar, fjallamennsku, móttöku og veitingar. Nemar geti því útskrifast með fagbréf í viðkomandi sérhæfingu eftir 90 einingar (hæfniþrep 2) og/eða haldið áfram námi jafnvel samhliða starfi og útskrifast með fagbréf eftir 160 einingar (hæfniþrep 3). Þá er ráðgert að greið leið liggi inn í ferðaþjónustutengt nám á (fag)háskólastigi fyrir áhugasöm. Þetta fyrirkomulag er í samræmi við óskir atvinnulífsins um hagnýtt og þrepaskipt nám.

Óskir þú eftir frekari upplýsingum um námslínuna hafðu samband við okkur hjá Hæfnisetrinu (haefni@haefni.is eða í síma 5991400)

Á fundinum frá vinstri til hægri: Jóhannes Þór Skúlason (SAF), Hildur Bettý Kristjánsdóttir (FA og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar), Valgerður Þ. E. Guðjónsdóttir (FA og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar), Ingibjörg Sigurðardóttir (Háskólinn á Hólum), Haukur Harðarson (FA og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar), Diljá Helgadóttir (MTR), Valgeir B. Magnússon (Símey), Helgi Þ. Svavarsson (Símey) og Ómar Kristinsson (VMA).

Hafðu samband