Nýr upplýsinga- og fræðsluvefur fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar hefur þróað nýtt verkfæri fyrir stjórnendur og starfsfólk í ferðaþjónustu. Um er að ræða upplýsinga- og fræðsluvefinn goodtoknow.is sem hefur það að markmiði að auðvelda framlínustarfsfólki að veita ferðamönnum góðar og gagnlegar upplýsingar. Vefurinn nýtist sérstaklega þeim sem hafa ekki áður starfað í ferðaþjónustu.

Á vefnum má finna ýmsar upplýsingar um áfangastaðinn Ísland, m.a. um íslensku þjóðina, landafræði, fjölda ferðamanna, áfangastaði ferðamanna og öryggisatriði. Með því að kynna sér upplýsingarnar á goodtoknow.is getur starfsfólk aflað sér grunnþekkingar um Ísland og íslenska ferðaþjónustu sem gagnast þeim í starfi.

Hugmyndin af vefnum kom frá Ferðamálastofu og var Hæfnisetri ferðaþjónustunnar falið að útfæra verkefnið. Auk Ferðamálastofu komu Áfangastaða- og Markaðsstofur landshlutanna, Safetravel og ASÍ að verkefninu. Vefurinn var einnig lagður fyrir stjórnendur og starfsfólk í ferðaþjónustu sem gáfu endurgjöf á efnið. Landsmennt, Starfsafl og Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks styrktu verkefnið.

Fyrsta útgáfa vefsins er núna aðgengileg á ensku en til stendur að þýða vefinn yfir á íslensku.

Góð upplýsingagjöf til ferðamanna er gríðarlega mikilvæg, því áreiðanlegar og gagnlegar upplýsingar ýta undir jákvæða og örugga upplifun ferðamanna sem aftur á móti eykur ánægju þeirra.

Við hvetjum stjórnendur og starfsfólk í ferðaþjónustu til að kynna sér goodtoknow.is

Hafðu samband