Mannauðsmál, sjálfbær ferðaþjónusta og meiri fræðsla

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og SAF standa að fundaröðinni Menntamorgunn ferðaþjónustunnar til að koma á framfæri því sem er efst á baugi varðandi hæfni og gæði ferðaþjónustunnar á Íslandi. Á þessu ári hafa verið haldnir þrír slíkir fundir og sjónum beint að ólíkum viðfangsefnum, þ.e. móttöku nýs starfsfólks, seiglu og vellíðan á vinnustað og nýsköpun í ferðaþjónustu. Fastur liður á fundunum er að stjórnendur miðla af reynslu sinni og gefa góð ráð.

Eftir að fundirnir færðust eingöngu yfir á rafrænt form hefur þátttakendum sem fylgjast með á rauntíma fjölgað auk þess sem áhorf hefur aukist.

Á síðasta Menntamorgni ferðaþjónustunnar sem fram fór 18. nóv. sl. var sjónum beint að nýsköpun í ferðaþjónustu. Í könnun sem send var út eftir fundinn sögðust 86% svarenda vera mjög eða frekar ánægðir með fundinn í heild sinni.

Í sömu könnun var óskað eftir hugmyndum að efni fyrir næstu fundi og nefndu margir í svörum sínum mannauðsmál, en jafnframt sjálfbæra ferðaþjónustu og hvatningu á tímum Covid. Á meðan einum fannst gagnlegt að heyra reynslusögur nefndi annar að hann vildi færri reynslusögur og meiri fræðslu.

Hæfnisetrið þakkar allar góðar hugmyndir og tekur tillit til þeirra fyrir komandi fundi í fundaröðinni.

Nálgast má upptökur frá Menntamorgnum ferðaþjónustunnar á Facebook síðu Hæfnisetursins.

Fyrirlesarar saman komnir í lok Menntamorguns ferðaþjónustunnar 18. nóv. sl. ásamt starfsfólki Hæfnisetursins og SAF. Frá vinstri: Skapti Örn Ólafsson, hjá SAF, Valdís Anna Steingrímsdóttir, hjá Hæfnisetrinu, Ragnhildur Ágústsdóttir, stofnandi og eigandi Icelandic Lava Show, Auður Vala Gunnarsdóttir, eigandi að Blábjörgum Resort, Ragnar Fjalar Sævarsson, ráðgjafi í nýsköpun, og Jóna Valborg Árnadóttir, hjá Hæfnisetrinu. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, talaði frá sinni heimabyggð.

Hafðu samband