Bakarinn, kokkurinn, listamaðurinn, starfsmannastjórinn og allt saman

Menntamorgunn ferðaþjónustunnar fór fram fyrir fullu húsi í Húsi atvinnulífsins í morgun og enn fleiri fylgdust með beinni útsendingu frá fundinum. Að Menntamorgninum standa Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og SAF.

Dr. Guðfinna Sesselja Bjarnadóttir frá LC Ráðgjöf flutti erindi um stjórnendahæfni og virkjaði gesti til þátttöku.

Kolbrún Magnúsdóttir, fræðslu- og starfsþróunarstjóri Bláa Lónsins, talaði meðal annars um leiðtogaþjálfun innan fyrirtækisins og mikilvægi þess að fylgja námskeiðunum eftir, að innleiða það sem kennt er, „annars breytist ekki neitt,“ sagði hún.

Dagný Magnúsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri kaffihússins Hendur í höfn, sagði frá sinni persónulegu reynslu af því að sleppa takinu sem stjórnandi og treysta starfsfólkinu sínu til að taka boltann. „Svo kemur að því að þetta verður einfaldlega of mikið því þegar þú ert farinn frá því að vera bakarinn, kokkurinn, listamaðurinn, starfsmannastjórinn og allt saman, þá þarf maður að læra að deila meiri ábyrgð.“ Hendur í höfn tekur þátt í verkefninu Fræðsla í ferðaþjónustu í samstarfi við Hæfnisetrið og Gerum betur. Dagný segir: „Í dag erum við búin að vera með fullt af námskeiðum í að efla og fræða og styrkja sjálfsmyndina með starfsfólkinu okkar og ég er ekki viss um að ég hefði farið út í þetta nema af því ég hafði einhvern mér við hlið sem tók við keflinu þannig að það verður fyrir vikið miklu markvissari þjónusta, það verður meiri ánægja bæði okkar viðskiptavina og okkar sem starfsfólks.“

Á fundinum komu jafnframt fram fræðsluaðilarnir Mímir, Franklin Covey, Dale Carnegie, Endurmenntun HÍ, Hagvangur, Gerum betur, Opni háskólinn, Símenntun Bifrastar, Þekkingarmiðlun og Þjónaskólinn, sem kynntu hvað er í boði í stjórnendafræðslu.

Fundarstjóri var Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF. 

Hægt er að horfa á upptöku frá fundinum á facebook-síðu Hæfniseturs ferðaþjónustunnar.

Á mynd: Margrét Reynisdóttir hjá Gerum betur, Hugrún Geirsdóttir hjá Endurmenntun HÍ, Hulda Rafnsdóttir hjá Símenntun Bifrastar, Yrsa G. Þorvaldsdóttir hjá Hagvangi, Ingrid Kuhlman hjá Þekkingarmiðlun, Margrét Rósa Einarsdóttir hjá Þjónaskólanum, Kolbrún Magnúsdóttir hjá Bláa Lóninu, Dagný Magnúsdóttir hjá Hendur í höfn, Pála Þórisdóttir hjá Dale Carnegie, Sandra Kristín Ólafsdóttir hjá Opna háskólanum og Helga Lind Hjartardóttir hjá Mími. Á mynd vantar Sigríði Þrúði Stefánsdóttur hjá Franklin Covey og Dr. Guðfinnu Sesselju Bjarnadóttur.

Hafðu samband