Góður rómur var gerður að erindum fyrirlesara
Á Menntamorgni ferðaþjónustunnar sem fram fór á Akureyri í gær sagði Sigrún Árnadóttir, verkefnastjóri hjá Höldi, frá góðu samstarfi við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og SÍMEY en Höldur tekur þátt í tilraunaverkefninu Fræðsla í ferðaþjónustu. Sigrún sagði kostina við samstarfið vera þá að hún fengi með því sérþekkingu, aðra sýn, stuðning, tengslanet og aðhald til að halda verkefninu gangandi. „Það er frábært að hafa þetta aðhald.“ Höldur var kosið Menntafyrirtæki ársins á dögunum og Sigrún sagði það alltaf hafa verið keppikefli hjá Höldi að gera betur. Nú þegar verðlaunin séu í höfn þá myndist enn meiri pressa á að gera betur, „Við verðum að standa okkur.“ Þá vísaði hún í ónefndan starfsmann og mat hans á námskeiði sem hann sótti á vegum fyrirtækisins: „Fíla öll þessi námskeið í tætlur, rosalega sáttur. Hjálpar mér mjög mikið í vinnunni.“ Sigrún sagði að sér hafi hlýnað í hjartanu að sjá þetta. „Er hægt að hafa það betra? Þetta er nákvæmlega það sem við viljum.“
Auk Sigrúnar komu fram Þórgnýr Dýrfjörð, framkvæmdastjóri Akureyrarstofu, Elías Bj. Gíslason forstöðumaður hjá Vakanum, Hildur Betty Kristjánsdóttir, Valdís A. Steingrímsdóttir og Hildur Oddsdóttir, sérfræðingar hjá Hæfnisetrinu. Fundinum lauk með þátttöku fundargesta í verkefninu Þjálfun í gestrisni.
Hæfnisetrið þakkar gestum kærlega fyrir komuna og þakkar jafnframt SAF, SÍMEY, Ferðamálastofu og Akureyrarstofu fyrir þátttöku í undirbúningi og framkvæmd fundarins.
Á mynd: Elías Bj. Gíslason, Hildur Betty Kristjánsdóttir, Valdís A. Steingrímsdóttir, Sigrún Árnadóttir og Þórgnýr Dýrfjörð.