Á Menntamorgni ferðaþjónustunnar sem fram fór í Húsi atvinnulífsins í gær sagði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), að mikilvægt væri að fyrirtæki fjárfestu í hæfni starfsmanna og þar með meiri fagmennsku.
Þetta er stóri möguleikinn okkar til þess að bæta samkepnishæfni ferðaþjónustunnar á Íslandi, það er að bæta gæðin, bæta hæfni starfsfólksins og þar með hæfni og möguleika fyrirtækjanna til þess að veita góða þjónustu […] Þá erum við farin að keppa á grundvelli sem við getum í alvöru unnið á. […] Við þurfum að færa okkur upp í gæðum og þetta er besta leiðin til þess.
Íslenskan var gerð að umfjöllunarefni á þessum fyrsta fundi í fundarröðinni Okkar bestu hliðar – Menntamorgnar ferðaþjónustunnar, sem Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og SAF standa fyrir. Meðal dagskrárefnis var erindi Stefáns Karls Snorrasonar, starfsþróunar- og gæðastjóra hjá Íslandshótelum og Marina Isabel Pimenta de Quintanilha e Mendonça, leiðsögumanns og kennara íslensku sem annars tungumáls: Hvernig gengur með íslenskuna? Þá flutti Andri Snær Magnason rithöfundur erindið: Nokkur orð um smámálið. Hildur Hrönn Oddsdóttir sérfræðingur hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar kynnti verkfærakistu Hæfnisetursins og María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF og formaður stýrihóps Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, kynnti fagorðasafn ferðaþjónustunnar. Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, stýrði umræðum í lok fundar.
Á mynd: Stefán Karl Snorrason, Hildur Hrönn Oddsdóttir, Sveinn Aðalsteinsson, Andri Snær Magnason, María Guðmundsdóttir, Marina Isabel Pimenta de Quintanilha e Mendonca og Jóhannes Þór Skúlason.