Hótel Selfoss hefur undirritað samstarfssamning um þjálfun og fræðslu við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Fræðslunet Suðurlands. Verkefnastjóri í verkefninu verður Dýrfinna Sigurjónsdóttir og mun hún aðstoða stjórnendur við að koma á markvissri þjálfun og fræðslu fyrir starfsmenn.
Hótel Selfoss er glæsilegt fjögurra stjörnu hótel staðsett miðsvæðis á Selfossi. Hótelið býður upp á 139 glæsileg herbergi en árið 2016 voru fjörutíu ný herbergi tekin í notkun. Á hótelinu starfa um 100 manns.
Á Hótelinu er Riverside restaurant þar er borið fram morgunverðarhlaðborð fyrir gestina. Á veitingastaðnum er lögð rík áhersla á að bjóða uppá ferskan og bragðgóðan mat, unninn úr hráefnum úr héraðinu. Á veitingastaðnum er bar með setustofu þar sem notalegt er að sitja og njóta meðan eldurinn snarkar í arninum.
Riverside Spa á Hótel Selfossi er einstök heilsulind að evrópskri fyrirmynd þar sem ljúft er að slaka á, og endurnærast á líkama og sál. Riverside Spa er í hlýlegu og notalegu umhverfi þar sem vísað er til íslenskrar náttúru í allri hönnun. Eldur, Ís, vatn, gufa og norðurljós er fléttað inn í hönnun baðstofunnar.