Aukin hæfni í ferðaþjónustu, betri upplifun og afkoma

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Stjórnstöð ferðamála og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið (ANR) hafa á síðustu árum gert átak í að styðja ferðaþjónustuna til aukinna gæða. Þar sem ferðaþjónustan snýst að stærstum hluta um þjónustu og mannleg samskipti þá skiptir hæfni starfsmanna í greininni meginmáli. Á síðasta ári var gengið frá stofnun svokallaðs Hæfniseturs ferðaþjónustunnar sem er samvinnuverkefni ofangreindra aðila og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem er í eigu aðila vinnumarkaðarins og stofnað af þeim. ANR fjármagnar verkefnið næstu þrjú árin.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar er sérfræðisetur sem aðstoðar fræðsluaðila og fyrirtæki við að koma á fræðslu og þjálfun í fyrirtækjum ferðaþjónustunnar. Hæfnisetrið stendur nú fyrir tilraunaverkefni í samstarfi við nokkra fræðsluaðila í fullorðinsfræðslu um að markaðssetja og koma á fræðslu í fyrirtækjum eins og gerð er grein fyrir á vefsíðu setursins, hæfni.is

Fræðsla löguð að þörfum og forsendum fyrirtækja

Nálgun Hæfnisetursins byggir á því að rétt fræðsla og þjálfun er fjárfesting sem margborgar sig eins og erlendar rannsóknir sýna. Breskar athuganir sýna að gæði þjónustu og framleiðni aukast verulega með fjárfestingu í réttri fræðslu og að sama skapi minnkar starfsmannavelta, rýrnun og fjarvera umtalsvert sem og kvartanir viðskiptavina. Þannig hefur verið sýnt fram á að fyrirtæki hafa verulegan ávinning af því að leggja tíma og kostnað í rétta fræðslu og þjálfun sem löguð er að þörfum fyrirtækisins.

Miklu máli skiptir því að fræðslan sé aðlöguð að hverju fyrirtæki og þar skiptir samtal fræðsluaðila við stjórnendur og lykilstarfsmenn höfuðmáli. Fræðslan, innihald hennar og nálgun, er því ætíð á forsendum fyrirtækjanna og á sér yfirleitt stað inni í fyrirtækjunum enda sýna kannanir að 80% fyrirtækja í ferðaþjónustu kjósa helst slíkt fræðslufyrirkomulag.

Hæfnisetrið vinnur þétt með fræðsluaðilum í að markaðssetja og koma á fræðslu. Sérfræðingar setursins leggja einnig til ýmis tæki til aðstoðar fyrirtækjunum t.d. námsefni sem er aðlagað þjálfun í fyrirtækjunum og ýmsa mælikvarða til að meta árangur fræðslunnar á rekstrarþætti fyrirtækja í ferðaþjónustu. Suma mælikvarða má rekja beint til fræðslu, aðrir gefa vísbendingar. Samanlagt gefa þessir þættir nokkuð skýra mynd af árangri fræðslunnar og jákvæð áhrif hennar á tekjustreymi fyrirtækisins.

Það skiptir líka miklu máli að greinin sjálf haldi merkjum fræðslu- og menntunar vel á lofti. Mikilvægt er að stærri fyrirtæki í greininni, sem mörg hver eru þekkt fyrir öflugt fræðslustarf, deili með sér þekkingu á árangursríkri fræðslu. Það hjálpar smærri fyrirtækjum í greininni sem kæmi heildarhagsmunum allra til góða.

Aukið fé til starfsmenntunar eykur hæfni fyrirtækja

Í skýrslu Stjórnstöðvar ferðamála, Fjárfestum í hæfni í ferðaþjónustu (2016), kom greinilega fram í könnun meðal stjórnenda í greininni að skýra þyrfti mun betur hvaða valkostir standa starfsmönnum til boða í formlegri menntun í ferðaþjónustu. Hæfnisetrið hefur því einnig unnið markvisst að því verkefni í samvinnu við formlega skólakerfið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, SAF og ýmsa aðra aðila vinnumarkaðarins. Kortlagðar hafa leiðir innan kerfisins og ekki síst, hvaða eyður geta verið til staðar. Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa bent á að þörf sé á starfsfólki með verklega færni því ferðaþjónustan sé fyrst og síðast verkleg grein. Þörf sé á skýrum leiðum og þrepaskiptu starfsnámi þar sem hvert þrep í námi tilgreini tiltekna færni í viðkomandi fagi. Þessi vinna er í fullum gangi en gengur vel og góður samhljómur er milli aðila í þessu samtali. Nauðsynlegt er að stjórnvöld viðurkenni mikilvægi starfsnáms, bæði formlegs náms og verkefna eins og Hæfniseturs, og verji auknu fé til þeirra til að stuðla að aukinni færni, gæðum og betri afkomu fyrirtækja í íslenskri ferðaþjónustu til framtíðar.

Rétt fræðsla leiðir til hæfni og hæfni er afl, í ferðaþjónustu sem öðrum atvinnugreinum. Við þurfum fræðslu núna í greininni og Hæfnisetrið mun leggja sitt af mörkum til auðvelda ferðaþjónustunni þá leið.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF

Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar.

Hafðu samband