Midgard adventure og Midgard Base Camp hafa hafið samstarf um fræðslu og þjálfun við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Gerum betur.
Midgard adventure og Midgard Base Camp eru fjölskyldufyrirtæki á Suðurlandi sem bjóða upp á ævintýraferðir, gistingu og reka jafnframt veitingastað og bar. Fyrirtækin eru á Hvolsvelli í hjarta Suðurlands nærri mörgum náttúruperlum Íslands eins og Þórsmörk, Landmannalaugum, svörtum ströndum og fallegum fossum.
Starfsmenn eru um 30 í báðum fyrirtækjunum og flestir hafa alist upp á Hvolsvelli eða á nærliggjandi bæjum og þeir elska að sýna gestum alla fallegu staðina í næsta nágrenni. Ævintýraferðirnar geta verið frá einum degi upp í margra daga ferðir þar sem farið er meðal annars í jeppaferðir, snjósleðaferðir, fjallahjólaferðir, gönguferðir í óbyggðum eða ísklifur.
Þau bjóða líka upp á ýmsa valkosti fyrir fyrirtæki þar sem tvinnað er saman ævintýri með Midgard Adventure við mat og drykk hjá Midgard Base Camp.
Segja má að Hæfnisetrið og Gerum betur hafi látið heillast af einkunnarorðum fyrirtækjanna: Komdu með okkur í ævintýri, vertu hluti af Midgard fjölskyldunni og þú gætir aldrei viljað fara aftur. Markmiðið er að efla hæfni starfsfólksins með fræðslu og þjálfun.