Norræna nemakeppnin í framreiðslu og matreiðslu í Kaupmannahöfn.

Norræna nemakeppnin í matreiðslu og framreiðslu fór fram í Hótel- og veitingaskólanum í Kaupmannahöfn föstudaginn 20. og laugardaginn 21. apríl 2018. Íslensku nemarnir í framreiðslu unnu til gullverðlauna og matreiðslunemarnir fengu silfurverðlaun.

Matreiðslu- og framreiðslunemar frá Danmörk, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð keppa um titilinn matreiðslu- og framreiðslunemi Norðurlanda. Keppnin á sér langa sögu en fyrsta keppnin var skipulögð árið 1981.

Tveir matreiðslunemar og aðrir tveir framreiðslunemar, 23 ára og yngri, kepptu frá hverju landi. Íslensku keppendurnir í matreiðslu voru þeir Steinbörn Björnsson nemi í Hörpu og Hinrik Lárusson nemi á Radisson SAS Blu. Þjálfari nemanna var Georg Arnar Halldórsson. Í framreiðslu kepptu þeir Sigurður Borgar Ólafsson nemi á Radisson SAS Blu og Axel Árni Herbertsson nemi í Bláa lóninu. Þjálfari nemanna var Tinna Óðinsdóttir.

Keppnin stóð yfir í tvo daga og verkefnin voru fjölbreytt. Nemarnir þreyttu faglegt fagpróf. Matreiðslunemarnir matreiddu klassíska asparsúpu, listauka “Amuse bouches” úr nautaskanka og Jerúsalem ætiþislnum og heitan grænmetisrétt en hluti af hráefninu kom úr ræktun skólans. Á laugardaginn unnu keppendur í matreiðslu og framreiðslu saman að verkefnum dagsins. Þau fengu svokallaða leyndarkörfu og áttu að matreiða og framreiða fimm rétta máltíð. Hráefnin í leyndarkörfunni voru kjúklingur, kjúklingalifur, bleikja, humar, möndlur, hvítt súkkulaði og rabarbari. Framreiðslunemarnir kepptu í vínfræðum, fyrirskurði, uppdekkningu á borðum og borðskreytingum, pöruðu vín saman með matseðlum, blönduðu drykki (kokteila), í mismunandi framreiðsluaðferðum og faglegri framreiðslu.

Forsíðumynd: Gull- og silfurverðlaunahafarnir. Frá visntri eru Hinrik Lárusson, matreiðslunemi, Axel Árni Herbertsson framleiðslunemi, Sigurður Borgar Ólafsson matreiðslunemi og Steinbjörn Björnsson matreiðslunemi.

Hafðu samband