Þekking og hæfni í faglegri stjórnun í ferðaþjónustu er verðmæt í íslensku atvinnulífi enda starfar mikill fjöldi fólks við greinina. Í þessu 14 mánaða stjórnunarnámi njóta nemendur sérfræðiþekkingar hérlendra og erlendra sérfræðinga og öðlast þekkingu og færni í að stýra fyrirtækjum í ferðaþjónustu og nýta sóknarfæri.
Sérfræðiþekking í umfangsmikilli atvinnugrein
Eftirspurn eftir þekkingu
Meistaranám í stjórnun í ferðaþjónustu undirbýr nemendur fyrir stjórnunarstörf í fyrirtækjum og skipulagsheildum í ferðaþjónustu hér á landi og erlendis. Námið endurspeglar aukið mikilvægi greinarinnar út um allan heim og þar með eftirspurn eftir sérfræðiþekkingu á þessu sviði sem nýtist til að stýra rekstri fyrirtækja með samfélagsábyrgð og sjálfbærni að leiðarljósi.
Sívaxandi grein
Fyrirtæki í ferðaþjónustu eru mörg og starfsemi þeirra er afar fjölbreytt. Starfsemin er bæði alþjóðleg og innlend og til atvinnugreinarinnar teljast ferðaskrifstofur, gististaðir og hótel ásamt skipuleggjendum ferða og afþreyingar. Einnig eru ýmsar menningarstofnanir og stofnanir hins opinbera áberandi á þessu sviði. Atvinnugreinin er umfangsmikil og hefur undanfarin ár aflað um 40% gjaldeyristekna Íslands.