Hæfnisetur ferðaþjónustunnar tók þátt í samhristingi Ferðamálasamtaka Snæfellsness

Samhristingur Ferðamálasamtaka Snæfellsness var haldinn á Arnarstapa þriðjudaginn 6. mars s.l.

Þeir sem gátu gefið sér tíma fyrir sögufylgd gengu frá bílastæðinu við höfnina, að útsýnispalli sem þar hefur verið komið fyrir, og eftir ströndinni (sem hefur verið friðland frá 1977), að styttunni af Bárði Snæfellsás eftir Ragnar Kjartansson, fram hjá Eystrigjá, Miðgjá og Músagjá, Gatkletti, Pumpu ofl. stöðum sem allir ferðaþjónustuaðilar á Snæfellsnesi verða að þekkja. Á eftir var farið að Stapagili, þar sem komið hefur verið upp aðstöðu fyrir steinhögg og útilistaverkagerð.

Kl. 17 voru yfir 30 ferðaþjónustuaðilar á Snæfellsnesi mættir í Samkomuhúsið á Arnarstapa. Fyrst var rætt um sameiginlegt kynningarefni Snæfellinga á Mannamóti, stefnumóti ferðaþjónustuaðila á landsbyggðinni og ferðaskipuleggjenda og ferðaskrifstofa, sem Markaðsstofur landshlutanna skipuleggja ár hvert. Að þessu sinni voru 18 ferðaþjónustufyrirtæki af Snæfellsnesi með og 14 nýttu sér þetta tilraunaverkefni. Hrafnhildur í Krums, sem útbjó kynningarefnið, sagði frá. Fundarmenn lýstu yfir ánægju með verkefnið og vilja til að halda áfram að þróa sameiginlegt kynningarefni. Við erum öll á Snæfellsnesi og það kom vel út að hafa sameiginlegan bakgrunn og að raða fyrirtækjunum upp landfræðilega.

Fulltrúar fyrirtækjanna kynntu sína þjónustu og dreifðu kynningarefni. Eins voru á Samhristingnum starfsfólk í upplýsingaveitu til ferðamanna á Snæfellsnesi.

Svæðisgarðurinn Snæfellsnes kynnti þau samvinnuverkefni á Snæfellsnesi sem eru í undirbúningi eða fullum gangi núna.

  • Áframhaldandi uppbygging áfangastaða
  • Gestastofa Snæfellsness/Upplýsingamiðstöð Snæfellsness
  • Barnamenningarhátíð verður haldin á Snæfellsnesi á árinu.
  • Unnið er að skiltastefnu, að öll skilti á Snæfellsnesi verði á íslensku og ensku og til séu leiðbeiningar um efnisval/liti og aðra hönnun.
  • Samstarf um matarauð Snæfellsness
  • Árlegur safna og sýningadagur verður haldinn 19. apríl n.k.
  • Árleg fjölmenningarhátíð verður haldin 20. október n.k.
  • Samstarf við þjóðgarðinn Snæfellsjökul
  • Samstarf við Umhverfisvottun Snæfellsness
    • Jarðarstund 24. mars þar sem Snæfellingar eru hvattir til að slökkva ljós í klukkustund og hugsa um umhverfismál
  • Shape er þriggja ára verkefni um sjálfbæra ferðaþjónustu með styrk frá Norðurslóðaáætluninni. Það gengur út á að virkja tengslanet hagsmunaaðila í hverjum svæðisgarði, skilgreina verkefni og vandamál og vinna saman að sjálfbærni og ábyrgri ferðaþjónustu. Kortleggja náttúru og menningararf og deila góðum dæmum.
  • Sagnaseiður og atvinnumannadeildin Sögufylgjur.

Símenntun Vesturlands og Hæfnissetur ferðaþjónustunnar kynntu hvaða þjónustu þau gætu boðið fyrirtækjum.  Símenntun Vesturlands hefur tekið þátt í mörgum samvinnuverkefnum á Snæfellsnesi síðustu misseri og Brynja Mjöll er sérstakur starfsmaður Símenntunar á Snæfellsnesi.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar er verkefni til næstu þriggja ára og er markmiðið að auka gæði í ferðaþjónustu á Íslandi. Hæfnisetrið og Símenntun Vesturlands telja að það geti þau gert með því að bjóða fyrirtækjum sérsniðna fræðslu og þjálfun fyrir starfsfólkið sem hentar hverju fyrirtæki fyrir sig.

Fyrirtækjum á Snæfellsnesi stendur nú til boða að fá aðstoð þeim að kostnaðarlausu við að greina þarfir og koma á markvissri þjálfun starfsmanna.

Góðar umræður urðu um öll þessi mál. Að lokum var unnið að uppfærslu á félagatali Ferðamálasamtaka Snæfellsness og ferðaþjónustuaðilar voru hvattir til að nota #visit Snæfellsnes til að merkja myndir á Instagram.

Næsti Samhristingur verður í rútu frá Snæfellsnes Excursions um Snæfellsnes í apríl eða byrjun maí. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes hjálpar til við skipulagningu og leiðsögn um áfanga og þjónustustaði. Allir sem vilja bjóða heim eru hvattir til að hafa samband (ragnhildur@snaefellsnes.is)

Hafðu samband