Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt 15. febrúar sl. Iceland Travel er menntafyrirtæki ársins 2018. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunar afhenti verðlaunin á árlegum menntadegi atvinnulífsins sem var haldinn í Hörpu.
Iceland Travel er leiðandi ferðaskrifstofa í móttöku erlendra ferðamanna sem byggir á áratuga reynslu. Ársveltan stefnir í 14 milljarða og farþegar sem koma til Íslands á vegum Iceland Travel eru eitt hundrað og fimmtíu þúsund. Átta af hverjum tíu starfsmanna fyrirtækisins hafa lokið háskólaprófi, flestir af viðskipta, ferðamála- eða tungumálabrautum.
„Það er mikill heiður að fá Menntaverðlaun atvinnulífsins. Þekking og færni starfsfólks er lykilatriði fyrir þjónustufyrirtæki eins og Iceland Travel sem starfar í harðri alþjóðlegri samkeppni. Við höfum því lagt mikla áherslu á þennan þátt í starfsemi okkar.
Fræðslustarf okkar hefur verið rekið undir merkjum Iceland Travel skólans. Þar hafa fjölmargir utanaðkomandi sérfræðingar á sínu sviði kennt námskeið og haldið fyrirlestra. Skólinn hefur einnig verið góður vettvangur fyrir starfsfólk að miðla af þekkingu sinni og reynslu. Hjá þeim 200 starfsmönnum sem starfa hjá Iceland Travel er hafsjór þekkingar á Íslandi sem áfangastað, markaðsmálum og ferðamálum. Verðlaunin er okkur mikil hvatning að halda áfram á þessari braut,“ segir Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Iceland Travel en stjórnendur Iceland Travel líta á fræðslu og starfsþróun starfsmanna sem fjárfestingu í framtíðinni enda hefur það skilað sýnilegum árangri.