Regluleg þjálfun starfsmanna á Hótel Rangá

Hótel Rangá er einn af vinsælustu áningarstöðum gesta víðsvegar að úr heiminum auk þess sem hótelið er þekkt meðal Íslendinga fyrir gæði og þjónustu. Á Hótel Rangá eru 52 herbergi, þar af átta fallegar svítur sem eru hannaðar á listilegan hátt eftir heimsálfunum sjö. Hótelið er reyklaust og opið allt árið.

„Hótel Rangá leggur mikla áherslu á hlýlegt viðmót og persónulega þjónustu. Hótelinu var boðin aðild að keðju lítilla, en hágæða hótela, Small Luxary hotels.  Sú aðild hjálpar okkur til að gera enn betur þar sem við bætum við ströngum gæðaviðmiðum keðjunnar. Það kemur fólk frá Small Luxary hotels keðjunni  sem tekur hótelið út og fylgist með að gæðaviðmiðum þeirra sé fylgt“ segir Friðrik Pálsson, eigandi hótel Rangá

„Á síðustu árum höfum við verið að taka fræðslu og þjálfun fastari tökum. Við fengum á sínum tíma Fræðslustjóra að láni til að koma okkur af stað. Við erum með reglulega þjálfun og við gerum fræðsluáætlun fyrir hvert ár sem verður að vera sveigjanleg því áætlunin þarf að taka mið af bókunarstöðu hótelsins.  Þetta kallar á gott skipulag og eins að við getum kallað á fræðsluaðila með stuttum fyrirvara. Einnig erum við með reglulega eigin fræðslu, þar sem við notum okkar starfsfólk til að þjálfa nýliða.“

„Við viljum að öll fræðsla fari fram á staðnum vegna þess að það er tímafrekt að senda fólk til Reykjavikur. Þar af leiðandi henta ýmiskonar vefnámskeið okkur vel. Það hefur einnig reynst okkur vel að fræðsla og þjálfun fari fram í minni hópum þar sem þátttaka starfsmanna er tryggð með hópavinnu, verkefnum og fyrirlestrum. Námskeið sem Gerum betur var með fyrir okkur skilaði okkur töluvert miklu og starfsfólkið var ánægt.“ segir Harpa Jónsdóttir, gæðastjóri

„Við erum að ná vel utan um staðarþekkingu því það skiptir miklu máli að allt starfsfólk okkar viti hvað er markvert að sjá og upplifa í næsta nágrenni. Við þjálfum okkar fólk í því með því að fara reglulega með þau í skoðunarferðir á vinsælustu ferðamannastaðina í nágrenninu.“ segir Friðrik að lokum.

Hafðu samband