Kynningarfundur var haldin 28 september í Húsi atvinnulífsins í samstarfi við SAF, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Stjórnvísi þar sem þær Margrét Reynisdóttir og Sigrún Jóhannesdóttir kynntu þjálfunarefnið fyrir fræðsluaðilum og fyrirtækjum í ferðaþjónustu.
Þær stöllur fengu styrk úr Fræðslusjóði til að vinna þjálfunarefni fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu.
Þau svið sem tekin eru fyrir í þessu þjálfunarefni eru móttaka ferðamanna, þrif, veitingar og bílaleigur
Þjálfunarefnið byggir á raundæmum úr ferðaþjónustu og hentar fyrir þjálfun á vinnustöðum og er það jafnframt aðgengilegt fyrir starfsþjálfa á vinnustað. Það hentar líka vel sem efni á námskeiðum og er fjölþætt og sveigjanlegt. Það má nota eitt dæmi eða raða nokkrum saman fyrir lengra námskeið og hentar til að flétta saman þjálfun í persónulega hæfni og faglegri hæfni.
Helstu kostir þjálfunar með raundæmum og verkefnum eru að þau brúa bil „sögu“ og veruleika. Starfsmenn vinna saman að lausnum, og fá tækifæri til að ræða eigin reynslu undir yfirskyni sögunnar.
Efnið getur einnig nýst í öðrum þjónustugreinum í atvinnulífinu því auðvelt er að heimfæra það á önnur þjónustustörf.
Verkefnið var þróað með 18 álitsgjöfum þar á meðal, SAF, Mímir símenntun, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Símey símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, Vakanum og nokkrum ferðaþjónustufyrirtækjum. Þau fyrirtæki sem hafa tilraunakeyrt þjálfunarefnið segja að það auki gæði, starfsánægju og hæfni og starfsfólk verði öruggara. Það kemur að góðum notum við mannaráðningar, innanhúsnámskeið, símenntun, íslenskunámskeið og á starfsmannafundum.
Það sem gekk síst er að efnið er eingöngu á íslensku en nú er unnið að þýðingum á ensku og pólsku með styrkjum úr starfsmenntasjóðum
Hægt er að nálgast þjálfunarefnið hjá Gerum betur ehf, gerumbetur@gerumbetur.is s. 899 8264