Samningur um tilraunaverkefni í ferðaþjónustu undirritaður

Fummtudaginn 21. september var undirritaður samstarfssamningur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) við fjórar símenntunarmiðstöðvar um tilraunaverkefni um fræðslu starfsmanna í ferðaþjónustu. Framkvæmd samningsins verður í höndum Hæfniseturs ferðaþjónustunnar sem FA vistar. Tilraunaverkefnið miðar að því að ná til fyrirtækja í ferðaþjónustu með fræðslu og þjálfun af ýmsu tagi. Hæfnisetrið mun sjá um útvegun nýrra og endurbættra verkfæra en megintilgangurinn er að samhæfa verkferla aðila, skiptast á efni, ráðgjöf og öðru sem að gagni kemur til auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu og hvernig ná má til fleiri fyrirtækja í ferðaþjónustu. Undirritun samningsins var hluti af vinnudegi aðila verkefnisins þar sem farið var yfir verkferla og verkfæri sem nú standa til boða og verða reynd í tilraunaverkefninu. Ætlunin er að bjóða öllum fræðsluaðilum upp á þessi verkfæri að loknu tilraunaverkefninu. Dagurinn var okkur í Hæfnisetrinu mjög gagnlegur og fengum við mörg ráð í verkfærakistuna ekki síst frá þeim fulltrúum fyrirtækja sem þarna komu og miðluðu af reynslu sinni.

 

Hafðu samband